Göngugatan lykilatriði í nýju miðbæjarskipulagi - Myndir

Göngugata með blandaðri byggð er hjartað í nýju skipulagi sem kynnt hefur verið fyrir miðbæ Egilsstaða. Bætt umferðaröryggi með gangandi og hjólandi vegfarendur í huga er eitt aðalmarkmið skipulagsins.

Þetta kom fram þegar skipulagið var kynnt á íbúafundi fyrir viku. Það er unnið af ARKÍS sem vann hugmyndasamkeppni sem varð grunnurinn að núverandi skipulagi frá árinu 2006.

Stærsta atriðið í því skipulagi var gata sem nefnd var „Rauði dregillinn“ eða „Strikið“ 18 metra breiðstræti sem lá þvert í gegnum bæinn, nokkurn vegin frá því þar sem Húsasmiðjan er í dag og út fyrir Hótel Hérað. Í nýja skipulaginu hefur gatan bæði verið þrengd og stytt auk þess sem hún verður lokuð fyrir bílaumferð.

Skipt upp í þrennt

Skipulagið, sem alls nær yfir 16,6 hektara svæði, skiptist upp í þrjú svæði. Nyrsta svæðið, frá Fagradalsbraut og út fyrir Hótel Hérað, er það svæði sem minnstum breytingum tekur frá núverandi götumynd.

Af því er helst að frétta að sett er hringtorg við gatnamótin hjá Söluskálanum, hámarkshraði brautarinnar er lækkaður í 30 km/klst og reynt að gera vegamót Miðvangs og Fagradalsbrautar öruggari þar sem aðeins verður hægt að komast að þeim frá ytri akbraut Fagradalsbrautarinnar.

Samkomusvæði á göngugötu

Gatnamótin voru nokkuð gagnrýnd, sem að opið væri inn í gatnamót nýrrar götu, Grenivangs sem væri mun nær hringtorginu, úr flestum áttum. Starfsmenn Arkís vísuðu á fundinum til þess að þetta hefði verið unnið í samstarfi við Vegagerðina með það í huga að gera umferð yfir Fagradalsbrautina eins örugga og kostur væri. Þetta yrði tekið til frekari skoðunar.

Göngugatan nær frá innanverðri Fagradalsbrautar og að Skattstofunni. Í innri enda hennar verður samkomusvæði, sem og við sitt hvorn enda Kaupvangs 6, sem þekktast er fyrir að hýsa Nettó.

Við hana er gert ráð fyrir 2-3 hæða húsum með verslunum á jarðhæð sem gengið er inn í frá götunni og íbúðum á efri hæðum. Efri hæðir húsanna eiga að vera inndregnar til að hleypa að sól og lágmarka skugga.

„Þegar mikið er að gerast á sama staðnum dregur það að fólk og þá verður meira að gerast. Við viljum að þarna sé fólk til staðar. Með að þétta byggð og blanda hana batna rekstrarskilyrði verslana og þjónustu,“ sagði Sigurbjörg Gunnbjörnsdóttir, skipulagsfræðingur frá Arkís á fundinum.

Blokkir brjóta upp vindinn

Á syðsta hluta miðbæjarins verður síðan íbúabyggð. Þau hús verða hærri en við göngugotuna. „Hvert svæði verður með sinn karakter,“ sagði Sigurbjörg. Fjölbýlishúsunum þar er meðal annars ætlað að brjóta vind og skýla göngugötunni fyrir hvassviðri úr suðri.

Á fundinum varð nokkur umræða um hvort nóg væri gert til að tryggja skjól inn á göngugötunni sem vísar nokkurn vegin þráðbeint norður-suður. Eftir hana virtist ljóst að kanna þyrfti frekar áhrif vinda á svæðinu.

1000 bílastæði

Allt í kringum göngugötuna verða til staðar bílastæði, sem alls eiga að vera yfir 1000 talsins í nýja miðbænum. Gert er ráð fyrir einu bílastæði á hverja 100 fermetra íbúðarhúsnæði og hverja 35 fermetra verslunarrýmis. Það viðmið er mismunandi milli staða en sveitarfélög ákveða hlutfall bílastæða.

Núverandi byggingamagn í miðbænum eru 28 þúsund fermetrar ofanjarðar en reiknað er með að 24 þúsund fermetrar bætist við.

Einna mesta umræðan snérist um hversu mikið væri horft til framtíðar með nýju skipulagi, eða hvort það væri hlekkjað af núverandi götumynd. Einkum var horft á staðsetningu dælustöðvar N1. Í skipulaginu frá 2006 átti hún að víkja en nú eru dælurnar færðar inn fyrir stöðina.

Vika er eftir af athugasemdafresti við skipulagið. Gert er ráð fyrir að skipulagsnefnd Fljótsdalshéraðs afgreiði það í júlí og eftir það gefast sex vikur til athugasemda áður en bæjarstjórn tekur skipulagið fyrir og sendir til Skipulagsstofnunar. Eftir ákvörðun hennar eru þriggja vikna frestur til athugasemda sem þýðir að skipulagið gæti tekið gildi í nóvember.

Gangi vinnan eftir gæti þó verið hægt að byrja vinna samkvæmt því í haust. Skipulaginu er skipt upp í minni svæði og er hægt að hefja uppbyggingu á einu þeirra óháð öðru.

Myndir: ARKÍS

01 10   Photo Web
01 1   Photo Web
01 2   Photo Web
01 3   Photo Web
01 4   Photo Web
01 5   Photo Web
01 6   Photo Web
01 7   Photo Web
01 8   Photo Web
01 9   Photo Web
02 11   Photo Web
02 14   Photo Web
02 15   Photo Web
02 16   Photo Web
02 19   Photo Web
03 21   Photo Web
03 24   Photo Web
03 25   Photo Web
03 28   Photo Web
Kvöld 1 Web
Kvöld 2 Web
Kort1
Kort2
Kort3
Kort4
Kort5

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.