„Góðir hlutir gerast hægt“

Tehúsið Hostel á Egilsstöðum opnaði síðastliðið vor en húsið er upprunalega gamalt trésmíðaverkstæði. Eigendurnir segja gildi starfseminnar vera gleði, sjálfbærni og heiðarleika.


Áður en hjónin Halldór Warén og Agnes Brá Birgisdóttir festu kaup á húsinu var þar rekinn staðurinn Kaffi Egilsstaðir og segjast þau oft hafa leitt hugann að því að kaupa húsið þegar það var á sölu. „Það var svo síðasta haust sem við veltum þeirri hugmynd upp hvort ekki væri skemmtilegt að opna hostel og kaffihús/bar, en sjálf höfum við mikinn áhuga á slíkum stöðum, upplifuninni og fólkinu sem þá sækir. Það næsta sem við gerðum var að fá teikningar og nokkrum mánuðum seinna sátum við uppi með lán,“ segir Halldór og hlær.

Gistirými fyrir 48 manns
Sex herbergi eru á hostelinu en þó gistirými fyrir 48 manns. Þá geta gestirnir eldað sér sjálfir eða keypt sér mat á kaffihúsinu. „Okkur fannst vanta ódýrari gistingu á Egilsstöðum. Einnig umhverfisvænan stað sem selur hollari veitingar. Við erum með frábært starfsfólk og höfum það að leiðarljósi að vera með gott hráefni og gera allt okkar frá grunni. Við erum sjálfum okkur trú og erum sátt við það sem við erum að gera. Síðast en ekki síst þótti okkur vanta stað til að hanga á, en þessi er tilvalinn til þess,“ segir Agnes Brá og bætir því við að sú menning sé farin að mjakast í rétta átt.

Agnes Brá segir endurnýtingu hafa verið hafða að leiðarljósi í allri innanhússhönnun. „Við erum með skýra umhverfisstefnu og allt sem er hér inni er eitthvað sem við höfum fengið frá foreldrum, vinum og ættingjum eða keypt ódýrt á sölusíðum eða nytjamörkuðum. Við flokkum allt og erum með okkar eigin burtfararmál sem eru krukkur. Þannig að segja má að stíllinn hafi algerlega komið af sjálfu sér“

„Við bjóðum persónulega þjónustu“
„Við fáum til okkar fólk sem er að ferðast á ódýrari máta og það myndast oft mjög skemmtileg stemning. Um daginn voru hér tvær stelpur á eigin vegum og tveir puttalingar. Þau enduðu svo saman í bíl þar sem þau voru öll að fara hringinn. Þetta er staður til þess að hitta og kynnast öðru fólki, ekki bara til þess að fara inn að sofa. Við bjóðum persónulega þjónustu og mikla nálægð við gestina og leggjum okkur fram við að vita sem mest um fjórðunginn til þess að geta leiðbeint fólki áfram,“ segir Agnes Brá.

Barinn er óður til trésmiðjunnar
Aðspurð um nafnið segir Agnes Brá: „Það kom í raun ekkert annað til greina. Við Halldór erum bæði innfæddir Egilsstaðabúar og húsið hefur alltaf gengið undir þessu nafni hjá heimamönnum. Hér var lengi trésmíðaverkstæði kaupfélagsins og hingað komu bæjarbúar til þess að sækja timbur í húsin sín. Þar sem kaffihúsið er í dag var timburþurrkun og þar sem hostelið er var trésmíðaverkstæðið sjálft. Við reynum að tengja útlitið við söguna og fyrri not en til dæmis er barinn timburstafli og hálgerður óður til trésmiðjunnar. Við munum gera sögunni skil seinna og skýra betur nafnið á húsinu en á bak við það er löng saga.“

„Við viljum vanda okkur“
Aðspurð um framtíðarsýn segir Agnes Brá: „Við erum bara hér og nú. Við viljum vanda okkur því góðir hlutir gerast hægt. Það tekur tíma að skapa sér nafn og það er talað um að lágmarkstími til það koma fyrirtæki á lappirnar sé tvö til þrjú ár. Við höfum ekkert verið að auglýsa, viljum bara að þetta vaxi á réttan hátt, í staðinn fyrir að gera einhverja sprengju sem svo bara springur.
Hugsunin hjá okkur er ekki að draga úr starfsemi í vetur. Auðvitað dregur úr gistingu, en þá getum við líka farið að leggja áherslu á kaffihúsið og þar með heimamanninn,“ segir Halldór og bætir því við að í vetur verði reglulega viðburðir af ýmsu tagi í húsinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.