Orkumálinn 2024

Góð þátttaka Austfirðinga í byggðarannsókn

Austfirðingar hafa tekið vel í viðamikla rannsókn sem stendur yfir á byggðafestu og búferlaflutningum. Vonir standa til að hún gefi skýrari mynd hvað heldur í fólk á minni stöðum og styðji þannig við stefnumótun og aðgerðir í byggðamálum.

Könnunin er á vegum Byggðastofnunar í samvinnu við rannsakendur við bæði innlenda og erlenda háskóla.

Rannsóknin er viðamikil og skiptist í þrennt. Í þessum hluta er íbúar í þorpum með færri en 2000 íbúa spurðir álits. Síðar kemur að íbúum í sveitum og á stærri stöðum. Segja má að aðrir byggðakjarnar en Egilsstaðir en Fellabær séu undir í þessari umferð.

„Oft eru stærstu staðirnir ráðandi en við viljum með þessu fá fram raddir á minni þéttbýlisstöðum. Slembiúrtak í landskönnun segir okkur ekki nóg um þessa litlu staði og þess vegna tökum við þá sérstaklega fyrir,“ segir Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri.

„Við erum að skoða hvað heldur í fólk, hvað skiptir það máli við val á búsetu, af hverju það flytur? Sumir segja að það sé þjónusta og atvinna, aðrir að það séu barnabörnin.

Hvernig tengist þetta þetta hreyfanleiknum, sem er meiri en talið hefur veið. Margir í þessum þorpum hafa reynslu af því að búa erlendis eða í höfuðborginni. Hvers vegna kjósa þeir að búa á þessum litlu stöðum?“

Markmið rannsakendanna er að fá 30% svörun frá íbúum sem er forsenda marktækra niðurstaðna. Annars vegar er leitað eftir þeirri þátttöku í hverju byggðarlagi fyrir sig, hins vegar á fjórðungsvísu.

Því lágmarki hefur einnig verið náð í Neskaupstað, Borgarfirði, Breiðdalsvík, Djúpavogi. Á öðrum stöðum vantar upp á, en þó ekki mikið.

„Þetta hefur gengið vel á Austurlandi. Við erum að verða komin með áreiðanlegar niðurstöður fyrir Austfirði í heild en okkur vantar samt fleiri svör. Svörunin hefur verið sérstaklega góð hjá fólki undir sjötugu af íslenskum uppruna. Við hvetjum því sérstaklega þá sem komnir eru yfir sjötug og fólk af erlendum uppruna til að taka þátt,“segir Þóroddur.

Hægt er að svara könnuninni á www.byggdir.is. Gert er ráð fyrir að hún verði opin fram að páskum.

Svörun á Austfjörðum:

Borgarfjörður eystri 54%
Neskaupstaður 41%
Breiðdalsvík 39%
Djúpivogur 31%
-------------------------------------
Stöðvarfjörður 27%
Vopnafjörður 27%
Eskifjörður 27%
Reyðarfjörður 26%
Seyðisfjörður 23%
Fáskrúðsfjörður 21%
-------------------------------------
Svörun á Austfjörðum 28%
Landsmeðaltal 26%

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.