Góð kaup eða flumbrugangur?

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar staðfesti á fundi sínum í síðustu viku kaup sveitarfélagsins á húsinu að Búðareyri 2 á Reyðarfirði. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn kaupunum og sögðu ekki nægjanleg gögn liggja fyrir. Aðrir sögðu brýnt að bæta úr húsnæðisþörf bæjarskrifstofanna og um væri að ræða eign á besta stað á góðu verði.

„Þar sem ekki liggur fyrir kostnaðaráætlun við kaup eða fyrirhugaðar framkvæmdir get ég ekki sett atkvæði mitt við þennan lið,“ sagði Dýrunn Pála Skaftadóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Fjarðabyggðar þegar hún gerði grein fyrir atkvæði sínu við umræðurnar fyrir viku.

Fyrir lá kauptilboð sveitarfélagsins í Búðareyri 2. Í greinargerð kemur fram að húsnæðið sé ætlað sem framtíðaraðstaða bæjarskrifstofu. Í fyrstu er þó aðeins ætla að nýta efri hæð hússins en verkfræðistofan Efla leigir neðri hæðina.

Húsnæðismál skrifstofu Fjarðabyggðar hafa lengi verið til skoðunar. Þær eru í dag á efri hæð í verslunar- og skrifstofuhúsnæði Molanum, eða Hafnargötu 2, á Reyðarfirði. Í umræðunum benti Gunnar Jónsson, starfandi bæjarstjóri, á að árið 2005 hefðu verið vinnustöðvar fyrir 18 starfsmenn í húsinu og þokkalega rúmt um þá, þótt sameiginleg rými svo sem mötuneytið væru ætluð undir 8-10 starfsmenn. Þeir eru hins vegar orðnir 33 í dag. Áform um styrkingu fjölskyldusviðs með fjölgun starfsmanna hefur enn frekar þrýst á um stærra húsnæði.

Þykir núverandi leiga of dýr

Annað sem vofir yfir er að 15 ára leigusamningur sveitarfélagsins í Molanum rennur út 1. mars næstkomandi. Eydís Ásbjörnsdóttir, oddviti Fjarðalistans og formaður bæjarráðs, sagði að ekki hefði náðst samkomulag um nýjan leigusamning, sveitarfélagið gerði kröfur um mikla lækkun leigunnar sem er um 30 milljónir á ári í dag. „Þetta er leiguverð sem á sér fáar hliðstæður á landsbyggðinni,“ sagði hún.

Samkvæmt greinargerðinni hefur það verið stefna Fjarðabyggðar síðustu ár að hverfa frá því að leigja eignir undir starfsemi og kaupa þær frekar Það hafi reynst hagkvæmara. Í henni kemur einnig fram að Fjarðabyggð muni yfirtaka Búðareyri 2 að fullu þegar samningur leigjenda rennur út. Í framhaldinu verði metin þörf á viðbyggingu og hönnun hennar. Stefnt er að því að flytja bæjarskrifstofurnar þangað í heild síðar meir en þangað til verði núverandi húsnæði leigt.

Galið að taka ákvörðun án gagna

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins tóku undir að þörf væri á að stækka húsnæði bæjarskrifstofanna en gagnrýndi hvernig að málinu staðið. Ragnar Sigurðsson rifjaði upp að fyrir rúmu ári hefði verið skipaður starfshópur um framtíðar húsnæði skrifstofunnar. Hann hefði fundað nokkrum sinnum en ekki skilað af sér formlega, eins og ráð hefði verið fyrir gert í byrjun apríl.

Ragnar benti á að hópnum hefði verið falið að vinna þarfagreiningu, meta húsnæði og gera tillögur um valkosti um framtíðarskipan bæjarskrifstofu með kostnaðaráætlun. Hann sagði slíkar greiningar ekki liggja fyrir nú.

„Við vorum öll sammála um að forgangsmálið væri að ná leigunni hér niður. Ég er hins vegar undrandi á að ekki sé lögð áhersla á að vinna málið áfram innan starfshópsins með að endurvekja hann, eða leggja ítarlegri vinnu í þann valkost sem nú liggur fyrir. Það er verið að kaupa húsnæði án hönnunar, þarfagreiningar, kostnaðaráætlunar eða annars. Að ætla að taka ákvörðun án nokkurra gagna er ólýðræðislegt og eiginlega galið,“ sagði hann.

Dýrunn Pála skýrði frá því að gögn um kaupin hefðu verið lögð fram á lokuðum trúnaðarfundi. Hún taldi að betri kynningu hefði þurft á málinu. Brýnt væri að stækka skrifstofurnar en lítið lægi fyrir um aðra kosti eða staðfestingar á að réttast væri að kaupa Búðareyri 2. Hún benti á að sveitarfélagið ætti hús sem stæðu auð og eins lægi ekki fyrir staðfestingar á mögulegri stækkun lóðarinnar. „Málið er óljóst og þetta er óþægileg staða sem við erum sett í,“ sagði hún.

Gott hús á góðu verði

Búðareyri er 344 fermetrar að stærð og skráð til sölu í byrjun september fyrir 54 milljónir en kaupverð Fjarðabyggðar 51 milljón. Í greinargerð bæjarstjórnar að með breytingum á húsnæði bæjarskrifstofanna muni sparast í rekstri sveitarfélagsins til framtíðar og leigukostnaður nýttur til uppbyggingar á eigin húsnæði. Kaupin hafi ekki áhrif á aðrar fjárfestingar né skuldir sveitarfélagsins.

Aðrir bæjarfulltrúar lýstu yfir stuðningi við kaupin. „Við erum á þeim stað núna að okkur vantar pláss, við getum ekki boðið starfsfólkinu lengur upp á að vera í núverandi húsnæði. Ég lít svo á að Búðareyri 2 sé á góði veðri. Ég lít svo á að hér sé verið að grípa gæsina, þótt þetta hús hafi ekki verið til umræðu í starfshópnum né verið þarfagreint,“ sagði Pálína Margeirsdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins sem einnig sat í starfshópnum síðasta vetur.

Eydís benti á að hópurinn hefði lagt út í kostnaðarmat húsnæðis, miðað við staðsetningu á Reyðarfirði. Sú greinin gilti þótt ekki hefði verið talað ákveðið um Búðareyri 2. Framundan sé síðan að kanna möguleika á viðbyggingu.

„Þetta er dauðafæri til að tryggja lóð og vísi að ráðhúsi á besta stað í miðbæ Reyðarfirði. Það veitir ekki af að halda uppbyggingu hans áfram. Okkur býðst hér skyndilega húsnæði sem ekki var til umræðu á mjög hagstæðu og um færi til að leysa brýn húsnæðismál,“ sagði Sigurður Ólafsson, bæjarfulltrúi Fjarðalistans.

Rúnar Már Gunnarsson, Miðflokknum, rifjaði upp að þrátt fyrir mikla leit hefði nefndin ekki fundið hentugt húsnæði. Hann fangaði því að Búðareyri 2 byðist. Hann sagðist hafa skoðað húsið og lóðina og litist vel á.

„Það er mikið framfaraskref fyrir Fjarðabyggð að eignast loks hús og það kostar ekki nema eitt og hálft ár í leigu. Við höfum á 15 árum borgað 450 milljónir hér í leigu, það er alltof mikið krakkar. Við gætum verið búin að byggja ráðhús mörgum sinnum fyrir það.“

Mynd: Úr auglýsingu fasteignarinnar


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.