Ögmundur: Að sjálfsögðu munu Norðfjarðargöng koma

ogmundur_jonasson_stebbi_thorleifs_undirskriftir_ngong.jpg

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segir það aðeins tímaspursmál hvenær ný göng verði gerði á milli Norðfjarðar og Eskifjarðar. Tómur ríkiskassi er ástæða fyrir töfum á framkvæmdum. Á fjórða þúsund íbúa í Fjarðabyggð skrifuðu nöfn sín á undirskriftalista sem ráðherranum voru afhentir í Neskaupstað í gær. Kröfur um vegabætur hljóma víðar úr fjórðungnum.

 

„Að sjálfsögðu munu Norðfjarðargöng koma. Spurningin snýst um hvenær það gerist,“ sagði Ögmundur þegar hann tók við listunum í gær. 

Það voru Bjartur Hólm Hafþórsson og Stefán Þorleifsson sem afhentu listana fyrir hönd íbúana en þeim fylgir áskorun um að framkvæmdir við Norðfjarðargöng hefjist í ár. Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, sagði á fjórða þúsund undirskrifta hafa safnast og hlutfallið verið svipað í öllum íbúakjörnum Fjarðabyggðar. Safnað var meðal íbúa átján ára og eldri en þeir eru ríflega 3.400 samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Skýr skilaboð um samstöðu
 
Ögmundur fagnaði þeim fjölda sem mætti í miðbæ Neskaupstaðar í gær og þeim sem skrifuðu undir áskorunina. 

„Þetta gefur okkur í ríkisstjórninni skýr skilaboð. Þið hafið sýnt samstöðu ykkar með þessum fjölmenna fundi sem við í verkalýðshreyfingunni hefðum einhvern tíman verið montin af á 1. maí.“

Ríkissjóður er fjárvana 
 
Framkvæmdir við Norðfjarðargöng áttu að hefjast 2009 en var síðan frestað til 2011. Samkvæmt frumvarpi að samgönguáætlun verður þeim aftur frestað til 2015. Ögmundur segir ástæðuna fyrir frestunum vera fjárskort.

„Ég hef viljað forðast að lofa upp í ermina á mér eins og áður hefur verið gert og vera raunsær í því sem ég segi og lofa. Frestunin á Norðfjarðargöngum ræðst eingöngu af því að ríkissjóður hefur verið fjárvana. 

Ef okkur tekst að afla fjármuna til samgöngubóta munum við að sjálfsögðu skoða þær kröfur sem hér birtast með opnum og mjög velviljuðum huga.“

Fleiri vilja samgöngubætur  
 
Kröfur um samgöngubætur berast víðar að úr fjórðungnum. Þær voru rauði þráðurinn í máli sveitarstjórnarmanna á fundi með ríkisstjórninni á Egilsstöðum í gærmorgun.

„Vopnfirðingar viku að fluginu, Djúpavogsmenn vildu ræða vegabætur yfir Öxi og Borgfirðingar minntu okkur á að vegurinn frá þjóðvegi eitt til Borgarfjarðar er að hálfu leyti með bundnu slitlagi og hálfu leyti með möl.

Seyðfirðingar nefndu að við færum í Fjarðarheiðagöng sem að hluta til væru fjármögnuð með veggjöldum, sem er hugsun og atriði sem má skoða í ljósi þess að þetta er í raun þjóðvegurinn til Evrópu.“

Ekki í einkaframkvæmd 
 
Aðspurður um hvort Austfirðingar gætu flýtt fyrir sínum framkvæmdum með að fara í einkaframkvæmdir, eins og Norðlendingar hafa gert með Vaðlaheiðargöngum, sagðist Ögmundur vera á móti slíku fyrirkomulag.

„Einkaframkvæmdir eru yfirleitt kostnaðarsamari en ríkisframkvæmdir. Það á við um vegabætur eins og aðrar framkvæmdir.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.