Glöð og ánægð yfir að vera komin til nýrra heimkynna

Sjö manna fjölskylda á flótta kom til Reyðarfjarðar á miðvikudaginn var. Þar með eru komnir þeir 19 flóttamenn sem væntanlegir voru til sveitarfélagsins í byrjun árs. Framundan er að kynnast nýjum heimkynnum.

„Það er aðdáunarvert hversu vel samfélagið hefur sameinast um að taka á móti fólkinu,“ segir Rakel Kemp, verkefnastjóri hjá Fjarðabyggð.

Fjölskyldurnar eru fjórar, tvær dvelja á Reyðarfirði og tvær í Neskaupstað. Allt fólkið er íraskt en hefur dvalið í flóttamannabúðum í Jórdaníu að undanförnu.

Sú síðasta kom viku seinna en hinar og var ferðalag hennar heldur lengra en hinna. „Það fólk kom í gegnum Istanbúl og Helsinki þar það lenti í seinkun á flugi. Þau eru glöð og ánægð með að vera komin til okkar þrátt fyrir að vera þreytt,“ segir Rakel.

Sú lenti eystra í hundslappadrífu. „Það er ekki hægt að lýsa lukkunni sem hún vakti, þetta var ekki bara snjókoma heldur jólasnjókoma. Þau settu hendurnar upp í loftið til að taka á móti snjónum.

Þrátt fyrir að hafa aldrei séð snjó áður vissu þau alveg hvað þau áttu að gera við hann og fóru í snjókast. Það var sérstaklega gaman að sjá gleðina í börnunum þótt þeim fullorðnu hafi líka verið mikið um.“

Fjölskyldurnar hafa nú farið í gegnum heilsufarsskoðun og verið skráðar inn í landið. Börnin hafa síðan hafið íþróttaæfingar. Rakel segir einnig að fólkið sé mikið sundfólk og áhugasamt um laugarnar í Fjarðabyggð.

Á morgun hefst síðan kennsla í íslensku og samfélagsfræðum sem standa mun í um tvær vikur. „Þau eru að koma sér fyrir og ná áttum, átta sig á gjaldmiðlinum og fara út í búð. Tilfinning mín er að þetta sé geðþekkt fólk og hugur í þeim að komast af stað í samfélaginu.“

Fjarðabyggð nýtur liðsinnis sjálfboðaliða frá Rauða krossinum en Rakel segir samfélagið allt taka vel á móti nýju íbúunum. „Það er sama hvar stigið er niður færi, í skólum, búðunum eða meðal sjálfboðaliða, allir eru tilbúnir að hlaupa undir bagga.“

Frá komu flóttafólks í lok febrúar. Mynd: Rauði kross Íslands

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.