Gistinóttum fækkaði á landsvísu í maí en fjölgaði á Austurlandi

Fjöldi gistinótta á Austurlandi í maí jókst um 17% milli áranna 2019 og 2018. Á sama tíma fækkaði þeim um 10% á landsvísu. Verkefnastjóri í markaðsmálum hjá Austurbrú varar við að dregnar verði of sterkar ályktanir út frá einum mánuði.

Þetta kemur fram í tölum sem Hagstofa Íslands sendi frá sér á föstudag. Gistinóttum fjölgaði hvergi meira en á Austurlandi. Þeim fjölgaði einnig á Norðurlandi um 11% meðan þeim fækkaði á Suðurnesjum um 25% og á Suðurlandi og Vesturlandi/Vestfjörðum um meira en 10%.

Herbergjanýting jókst hvergi jafn mikið í maí og á Austurlandi eða um 8%. Þegar tölurnar eru skoðaðar nánar sést hins vegar að framboð á herbergjum á Austurlandi á þessu tíma eykst nær ekkert milli ára, ólíkt Suðurland eða Vesturlandi/Vestfjörðum.

Þá sést einnig að gistinætur á tímabilinu eru tvöfalt færri á Austurlandi heldur en Suðurnesjum eða Vesturlandi/Vestfjörðum þar sem þær eru næst fæstar, eða um 20.000 talsins.

Í skýringum Hagstofunnar segir að á landsvísu muni mest um staði sem miðla gistingu í gegnum Airbnb eða slíkar síður, þar sem fækkunin hafi verið 29%. Yfir tólf mánaða tímabil, frá júní 2018 til maí í ár er aukningin á Austurlandi sama og engin, meðan gistinóttum fjölgar um 24% á Vesturlandi/Vestfjörðum og um 10% á Norður- og Suðurlandi.

Ferðaþjónustuaðilar verða að vera á tánum

Jónína Brynjólfsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, segir varlegt að lesa mikið í tölur aðeins úr einum mánuði, horfa þurfi á tölur fyrir árið í heild þegar þær liggi fyrir. Ljóst sé hins vegar að breytingar séu að verða á ferðamannamarkaðinum.

„Seðlabankinn birti tölur í síðustu viku um að kortavelta hefði minnkað en umferð aukist á Hringveginum. Við sjáum að hópaferðum fækkar og þær breytast en einstaklingsferðum fjölgar. Oft bókar fólk sem ferðast þannig með styttri fyrirvara. Við vitum líka að þeir sem eru á ferð utan háannatímans ferðast oft ódýrar heldur en hinir.

Ég held að það sé engin ástæða til svartsýni en við verðum að halda áfram að vinna í markaðssetningu. Við heyrum að þeir sem eru með puttann á púlsinum og duglegir að koma sér á framfæri uppskera eftir því.

Við erum að gera könnun meðan austfirskra ferðaþjónustuaðila og fyrsti niðurstöður úr henni eru að það skiptist nokkurn vegin jafnt í þá sem hafa bætt við sig það sem af er ári og þeirra sem hafa tapað. Við heyrum líka að júní er ekki sterkur þannig ég held við ættum að horfa betur á tölurnar þegar árið er úti.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.