Orkumálinn 2024

Gestir koma dauðskelkaðir um miðjar nætur eftir ferð yfir Oddsskarðið

Hótelhaldari í Neskaupstað kallar eftir bættum merkingum til að forða því að ferðamenn villist gamla veginn yfir Oddsskarð og sitji þar jafnvel fastir í snjósköflum. Bregðast verði við til að vandamálið verði ekki viðvarandi í sumar.

„Leiðin hefur nánast ekki verið uppfærð í neinum GPS tölvum eftir að göngin opnuðu í nóvember og fólk fer leiðina í blindni. Það vantar almennileg skilti sem öskrá á fólk að trúa ekki GPS tækinu,“ segir Hákon Guðröðarson, hótelhaldari á Hótel Hilibrand í Neskaupstað.

„Okkur finnst við fá gesti annan hvern dag sem fara þessa leið. Nú er umferðin að aukast og við óttumst að þetta verði viðvarandi,“ segir hann.

Ekki er nóg með að gestirnir komi til Neskaupstaðar dauðskelkaðir eftir að hafa þvælst leið sem hætt var að nota fyrir 40 árum þegar Oddsskarðsgöngin voru opnuð. Dæmi er um að þeir hafi lent í vandræðum, setið þar fastir í snjósköflum, stórskemmt bíla sína og tafist svo þeir séu að koma á hótelið um miðja nótt eftir upplifun sem þeir myndu vart óska sínum versta óvini. Aðrir snúa við og láta vita að þeir komist ekki.

Tveir hótelgestir lentu í miklum hrakningum á skarðinu síðustu nótt. Annar þeirra skemmdi gírkassann í bíl sínum í látunum og neyddist þess vegna til að bakka niður skarðið og síðan í gegnum göngin til komast í bókaðan náttstað.

Hákon segir hótelið reyna að senda gestum sínum leiðbeiningar áður en þeir komi en fólk í fríi sjái ekki endilega skilaboðin.

Ný Norðfjarðargöng voru opnuð um miðjan nóvember. Gömlu Oddsskarðsgöngunum var þá lokað og vegskiltum breytt. Hákon segir að fyrst eftir opnun ganganna hafi borið á að gestir þvældust upp skarðið, sem hafi verið skiljanlegt, en það hafi fljótt skánað, einkum eftir uppfærslu kortakerfa Google. Vandamálið skjóti hins vegar nú upp kollinum á ný með aukinni umferð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.