Geskur lokar eftir eitt og hálft ár í rekstri

„Við höfðum engar hagnaðarvonir en bundum vonir við að staðurinn yrði rekstrarhæfur. Við gerðum okkur grein fyrir því að svona rekstur væri erfiður, enda lítið markaðssvæði og hörð samkeppni,“ segir Ragnar Sigurðsson, annar eigandi veitingastaðarins Gesks á Reyðarfirði, sem hefur nú verið lokað eftir eitt og hálft ár í rekstri.


Eftirfarandi yfirlýsing var send út á Facebooksíðu Gesks í gær;

„Geskur þakkar fyrir viðskiptin undanfarið eitt og hálft ár. Því miður er ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri og því hefur Gesk verið lokað. Þessi tími hefur verið lærdómsríkur, gefandi og skemmtilegur. Við þökkum öllu því góða starfsfólki sem við höfum haft og viðskiptavinum kærlega fyrir viðskiptin á þessum tíma. Takk fyrir okkur.“

Töldu markað fyrir slíkum stað
Ragnar og meðeigandi hans, Ingólfur Tómas Helgason, opnuðu Gesk í ársbyrjun 2017. Gerðu þeir rekstrarsamning við Skeljung sem er eigandi bensínstöðvarinnar og húsnæðisins.

„Við skynjuðum markaður væri fyrir svona stað í Fjarðabyggð og Austurlandi öllu. Við skilgreinum okkur sem veitingastað og bar þó svo að það verði hægt að grípa hér í gos og almennt slykkerí,“ sagði Ragnar, á opnunardaginn, 10. janúar 2017, eftir talsverðar breytingar á húsnæðinu.

Skeljungur auglýsir eftir nýjum rekstraraðila
„Hugmyndin okkar var að búa til matsölustað sem biði upp á úrvalsmat, en við vorum með boozt, pizzur, hamborgara og feira. Fram að okkar tíma hafði var þar staður þar sem rekstraraðilinn vann sjálfur á staðnum. Við vildum láta reyna á það að opna Gesk og manna hann án þess þó að við, rekstraraðilarnir, værum á staðnum öllum stundum.

Við höfum átt í erfiðileikum með að manna staðinn að fullu þrátt fyrir það að hafa úrvalsstarfsfólk. Salan yfir daginn var það lítil að við brugðum á það ráð að hafa bara opið á kvöldin og breyttum matseðlum og einfölduðum allan rekstur. Vonir okkar stóði til að þær breytingar myndu standa undir rekstrinum en því miður dugði það ekki til,“ segir Ragnar.

Skeljungur mun nú auglýsa eftir nýjum rekstraraðila. „Við erum reynslunni ríkari og fullir áhuga fyrir frekari rekstri á svæðinu. Við höfðum auðvitað viljað sjá þetta fara öðruvísi en hugur okkar er fyrst og fremst hjá því starfsfólki sem hefur staðið þétt við bakið á okkur í rekstrinum og það er ekki auðveld ákvörðun að þurfa segja því upp.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar