Gerðu athugasemd við að fá fundargerð í stað þess að fundur væri haldinn

Bæjarráð Fjarðabyggðar vísaði liðum af fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar aftur til nefndarinnar þar sem ekki var rétt boðað til fundar nefndarinnar. Formaður nefndarinnar ber við tímapressu en segir að hætt hafi verið við þegar athugasemd barst. Bæjarfulltrúar segja málinu lokið og lærdómur verði dreginn af því.

Á mánudegi fyrir tveimur vikum var haldinn var fundur í nefndinni þar sem meðal annars lágu fyrir tillögur um framkvæmdaáætlun næsta árs og höfðu áhrif á gerð fjárhagsáætlunar. Ekki var hægt að ljúka umræðum á fundinum og varð úr að ákveðið var að halda fund tveimur dögum síðar.

Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði í síðustu viku kemur fram að ekki hafi verið boðað til formlegs fundar, heldur hafi Einar Már Sigurðsson, formaður nefndarinnar, sent út drög að fundargerð og óskað eftir staðfestingum eða athugasemdum við hana.

Fundargerðin hefði ekki haldið fyrir dómi

Ragnar Sigurðsson, fulltrúi flokksins í nefndinni, segir að ekki sé óalgegnt að boðað sé til símafundar ef afgreiða þurfi mál með hraði sem allir séu sammála um. Í þessu tilfelli hafi verið erfitt að taka málefnalega umræðu um stór málefni.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa gagnrýnt vinnubrögðin og segja þau hvorki mark um góða stjórnsýslu né lýðræðisleg vinnubrögð. Á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku sagði Jens Garðar Helgason, oddviti flokksins, að fundargerðin sem hefði getað orðið til ef ekki hefðu komið fram athugasemdir héldi ekki fyrir dómi ef íbúi eða fyrirtæki hefði látið reyna á ákvarðanir sem samþykktar hefðu verið.

Eftir athugasemdir bæjarráðs voru liðirnir teknir til umræðu og afgreiðslu á fundi nefndarinnar í byrjun síðustu viku.

Gekk illa að finna fundartíma

Á bæjarstjórnarfundinum sagðist Einar Már, formaður nefndarinnar og bæjarfulltrúi Fjarðalistans, taka fulla ábyrgð á gjörðinni. Rétt væri að þetta væri ekki vinnulag sem vanalega væri viðhaft en um hefði verið að ræða tímapressu og reynt að finna leið til að létta á henni þar sem illa gekk að finna tíma þar sem fulltrúar í nefndinni gætu hist.

Í hans huga hefði alltaf verið skýrt að ef athugasemd bærist við fyrirkomulagið yrði hún tekin til greina og fallið frá því, sem og gerðist.

Í samtali við Austurfrétt sagði Ragnar að athugasemdir sem hann gerði við áætlunina hefðu verið teknar til greina. Málinu hefði verið lokið með fundinum í síðustu viku og loforðum um að slík vinnubrögð yrðu ekki viðhöfð framvegis.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.