Gengur vel að leysa vandamálin með snemmtækri íhlutun

Fjarðabyggð hefur um nokkurt skeið reynt að bregðast fyrr við vandamálum ungra barna með sérstakri aðferðafræði sem rekin er undir merkjum Spretts. Það byggir á þverfaglegri samvinnu sem þykir hafa gefið góða raun þar sem 90% mála leysast að mestu eða öllu leyti.

„Sprettur er samfélagslegt verkefni fyrir öll börn á leik- og grunnskólaaldri,“ segir Alma Sigurbjörnsdóttir, yfirsálfræðingur.

Hún er hluti af teyminu utan um Sprett, sem samanstendur af foreldrum og fagfólki til að vinna með vanda barna eins skjótt og hans verður vart. Börnin sjálf taka auk foreldra og nærstaddra, en þess utan kemur að verkefninu fagfólk frá fjölskyldusviði Fjarðabyggðar, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Skólaskrifstofu Austurlands og skólunum sjálfum.

Alma og Bergey Stefánsdóttir, sérfræðingur í barnavernd, leiða verkefnið fyrir hönd sveitarfélagsins. Bergey segir að verkefnið hafi tekið nokkrum breytingum á þessum árum sem það hefur verið við lýði.

„Mestu munaði sennilega að þegar Sprettur var settur á laggirnar hér í Fjarðabyggð voru ekki orðin staðfest lög um samþættingu þjónustu eins og varð síðar. Þegar það varð raunin þurftum við að gera nokkrar innanhúss breytingar því eftir það varð það þannig að fólk á beinlínis rétt á að sækja slíka þjónustu sem ekki var áður. Nú kveða lögin á um að fólk á að njóta þjónustu sem þessarar hvenær sem þörf er á.“

Börnin taka þátt í lausninni


Fyrirfram mótað ferli tekur við þegar starfsfólk skóla eða foreldrar taka eftir vandamálum barna. Fremstir eru tengiliðir í skólunum sem ræða við foreldra eða þá að foreldrarnir sjálfir hafa frumkvæði að því að óska aðstoðar. Fyrst er reynt á úrræði skólans áður en Sprettsteymið tekur við.

„Þar förum við hispurslaust í gegnum vandamálin og tökum sjónarmið barnsins mjög alvarlega. Það er furðu oft svo að einfaldlega með því að spyrja börnin sjálf má fljótt átta sig á vandamálinu og í kjölfarið er mikilvægt að fá þau með okkur til að leysa það. Með öðrum orðum þá tekur barnið þátt í að ákveða hvaða lausnir koma til greina og vinnur með foreldrum og teyminu að lausninni,“ segir Bergey.

Of lítill svefn oft rótin að vandanum


Af nægu er að taka. Síðastliðið skólaár var hið fyrsta þar sem Sprettsteymið komst ekki yfir öll þau mál sem komu inn á þess borð. Eitt af því sem Alma og Bergey benda á sem orsök vandans er of lítill svefn sem aftur leiðir af sér slen eða pirring á daginn.

„Tíu klukkustundir er gott viðmið fyrir yngri börn. Það má alveg færa sterk rök fyrir að lítill svefn sé undirrót margra þeirra vandamála sem börn og unglingar, og reyndar við velflest, þurfum að eiga við dags daglega og þá bæði andlega og líkamlega. Nánast allt sem við tökum okkur fyrir hendur byggist á góðum svefni. Það ræður góðri tilfinningastjórnun, hegðun, tengslum og almennri líðan. Svefn skiptir sköpum,“ segir Alma.

Snýst um að börnunum líði betur í kjölfarið


Sprettur virðist samt skila sínum árangri. 71% mála teljast leyst farsællega og 21% til viðbótar að öllu leyti. Þau mál sem aðeins eru leyst að hluta til fara síðan lengra.

„Við gefumst aldrei upp og öll slík mál fara áfram til fagaðila sem vinna áfram með börnunum og fjölskyldum þeirra. Það geta verið aðilar eins og greiningarstöðvar, heilsugæslan eða sérfræðingar ofar í keðjunni. Kerfið grípur alla og það er til mikils að vinna að koma í veg fyrir að lítils háttar mál verði börnum eða unglingum ekki að fótakefli langt fram eftir aldri,“ segja þær.“

Það er Bergey sem tekur þó fram að tilgangurinn með vinnu Sprettsteymisins sé ekki að börnin og unglingarnir fari frá þeim full hamingju. Slíkt markmið er vitaskuld óraunhæft. „Öllu frekar snýst starf okkar um að bæta það sem hægt er þannig að börnunum líði betur í kjölfarið en áður var raunin. Takist það erum við sáttar.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.