Gengið vel að koma í veg fyrir að olían berist út í fjörðinn

Vel gengur að koma í veg fyrir að olía úr smátogaranum Drangi, sem sökk í Stöðvarfjarðarhöfn í morgun, berist út í fjörðinn. Kafarar Landhelgisgæslunnar freista þess nú að þétta leka úr skipinu.

„Við erum að tryggja að olían sem er í skipinu berist ekki út í fjörðinn. Akkúrat núna er að koma kafarasveit frá varðskipinu Þór sem ætlar að kafa ofan að öndunaropum olíutankanna og stífla þau.

Það er talið að skynsamlegra sé að reyna að halda olíunni um borð en reyna að dæla henni,“ segir Grétar Helgi Geirsson hjá lögreglunni á Austurlandi sem leiddi aðgerðir fyrst í morgun.

Talsverð olía var um borð í skipinu þar sem það var fyllt fyrir helgi, en halda átti til veiða í byrjun vikunnar. Áhöfnin fór heim í helgarleyfi og var enginn um borð í morgun.

Sveitarfélagið Fjarðabyggð, sem umsjónaraðili hafnarinnar, hefur nú tekið við vettvangsstjórn þar sem ekki er lengur um björgun verðmæta eða fólks að ræða. Þegar búið verður að tryggja umhverfið verður það útgerðarinnar og tryggingafélags hennar að ákveða næstu skref. Von er á fulltrúum þeirra til Stöðvarfjarðar í kvöld.

Það voru skipverjar á línubáti sem voru að gera sig klára til veiða upp úr klukkan sjö í morgun sem tóku eftir því að Drangur var farinn að hallast óeðlilega mikið. Þeir kölluðu eftir aðstoð um kortér upp úr sjö. Eftir það sökk skipið hratt og var komið í kaf um hálftíma síðar.

Afturendi skipsins er á kafi en stefnið stendur upp úr. Aðaláherslan í morgun hefur verið á mengunarvarnirnar og hafa björgunarsveitir úr nágrannabyggðum, slökkvilið, hafnarstarfsmenn og skipverjar af varðskipinu Þór hjálpast að í morgun.

Að sögn Grétars Helga hafa þær aðgerðir gengið vel. „Við höfum ekki misst mikið í burtu, eiginlega náð að halda öllu við skipið. Það fór smá slikja inn í næstu höfn við hliðina. Við settum út uppsogspylsur sem hafa verið mjög duglegar og núna erum við að laga til girðingarnar. Olían lekur jafnt og þétt frá skipinu og okkur hefur gengið ágætlega að ná stjórn á lekanum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.