Orkumálinn 2024

Vel gekk að króa eldinn af - Myndir

Vel gekk að ná tökum á sinueldi sem fór af stað við bæinn Vífilsstaði í Hróarstungu á Fljótsdalshéraði í kvöld. Mikill eldur var þó á staðnum þegar slökkvilið og lögregla komu á staðinn.

„Þetta leit ekki vel út þegar við komum. Það var mikill eldur á stóru svæði og veðrið vont, talsvert rok. Það hjálpar ekki ekki til að vera með sinueldi inni í skógi, það er mjög erfitt að eiga við svoleiðis.

Þegar við vorum búnir að átta okkur á umfanginu og í hvað stefndi gekk slökkvistarfið ótrúlega vel. Við erum mjög vel búnir af torfæruslökkvibílum og gátum því komist vel um svæðið,“ segir Haraldur Geir Eðvaldsson, slökkviliðsstjóri hjá slökkviliði Múlaþings.

Útkallið kom um klukkan tíu í kvöld. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu breiddist eldurinn hratt út eftir að hún kom á svæðið og um tíma skíðlogaði það. Það var þó lán í óláni að vindurinn stóð frá húsum á bænum en útihús á bænum voru rétt við þar sem eldurinn fór af stað. Fyrir klukkan ellefu hafði náðst að hemja eldinn. Vakt verður við svæðið í nótt.

„Eldurinn fór hér upp úr dældinni og yfir hæð inn í skóg. Að auki brunnu hér bílhræ og fleira drasl þannig þetta var töluverður eldur,“ segir Haraldur Geir. „Sem betur fer náðum við að stöðva útbreiðsluna til norðurs og loka eldinn þannig inni.“

Gottt að eiga góða að

Við slökkvistarfið naut slökkviliðið aðstoðar frá Isavia á Egilsstaðaflugvelli og Seyðisfirði. „Við kölluðum út vaktmann Isavia á Egilsstaðaflugvelli sem kom með dælubíl og slökkvimenn frá Seyðisfirði komu til að veita okkur fleiri hendur. Það hjálpar að geta kallað til viðbragðsaðila.“

Talsverð skógrækt er á jörðinni og segir Haraldur Geir að miklu hafi skipt að ná tökum á eldinum áður en hann breiddist frekar út í henni. „Eldur í gróðri inni í skógi eru einhverjar verstu aðstæður sem við getum hugsað okkur að lenda í. Þar er erfitt að koma einhverjum stórtækum vélum að heldur verður að vinna slökkvistarfið með höndunum.“

Slökkviliðið hefur haft nóg að gera síðustu daga. Á þriðjudag brann skemma við bæinn Freyshóla á Völlum og á miðvikudag kom upp eldur í brúnni yfir Lagarfljót. Útkallið í gærkvöldi var því það þriðja á þremur dögum.

„Þetta er mjög sérstakt. Við grínumst með að það komi alltaf þrjú útköll í röð en ekki dag eftir dag. Það sem er merkilegt að við höfum bæði séð það sem við höfum talað og hugsað mest um, sem eru gróðureldar og síðan það sem við bjuggumst alls ekki við að það kviknaði í Lagarfljótsbrúnni. Þar fengum við líka aðstoð frá Isavia sem höfðu tæki til að geta slökkt í frá fljótinu og það var mjög gott.“

Vifilsstadir Eldur 2 Web
Vifilsstadir Eldur Simamynd Web
Vifilsstadir Sinubruni April21 0002 Web
Vifilsstadir Sinubruni April21 0010 Web
Vifilsstadir Sinubruni April21 0016 Web
Vifilsstadir Sinubruni April21 0023 Web
Vifilsstadir Sinubruni April21 0027 Web
Vifilsstadir Sinubruni April21 0029 Web
Vifilsstadir Sinubruni April21 0036 Web
Vifilsstadir Sinubruni April21 0038 Web
Vifilsstadir Sinubruni April21 0043 Web
Vifilsstadir Sinubruni April21 0044 Web
Vifilsstadir Sinubruni April21 0049 Web
Vifilsstadir Sinubruni April21 0059 Web
Vifilsstadir Sinubruni April21 0064 Web
Vifilsstadir Sinubruni April21 0065 Web
Vifilsstadir Sinubruni April21 0067 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.