Gauti: Látum gleðivímuna líða af okkur áður en viðræður hefjast

Gauti Jóhannesson, oddviti Sjálfstæðisflokks í nýju, sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi, segir niðurstöður fyrstu sveitarstjórnakosninga þar í samræmi við væntingar framboðsins. Það fékk flest atkvæði og fjóra fulltrúa af ellefu.

„Ég fagna þessum niðurstöðum. Þær eru í samræmi við þær væntingar sem við höfum gert okkur. Ég held að við séum að uppskera eftir þá vinnu sem við höfum lagt á okkur undanfarnar vikur og mánuði.

Þegar kosningunum var frestað í vor ákváðum við að nýta tímann til að vinna saman, bæði í málefnastarfi og til að hrista hópinn saman. Ég held að það hafi skilað þessum árangri,“ sagði Gauti í samtali við Austurfrétt eftir að úrslitin lágu ljós fyrir.

„Við ákváðum strax að tala skýrt og mér fannst við setja fram málefnaskrána á skýran máta, bæði í ræðu og riti,“ sagði hann aðspurður um ástæður árangursins.

Flokkurinn fékk 29% atkvæða og 4 menn kjörna. Ekki verður myndaður tveggja flokka meirihluti án aðkomu flokksins sem getur bæði gert það með Austurlistanum, sem fékk þrjá fulltrúa og Framsóknarflokki, sem fékk tvo fulltrúa.

„Við höfum enga ákvörðun tekið. Við ætlum að láta gleðivímuna líða af okkur áður en við tökum til við að skoða þetta nánar,“ segir Gauti um mögulega meirihluta.

Hann sagði engar þreifingar hafa verið sem heitið getur um myndum meirihluta þótt framboðin hafi heyrt hvert í öðru í aðdraganda kosninganna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.