Garnaveiki greind á bæ í Fellum

Matvælastofnun hefur staðfest að garnaveiki hafi greinst á sauðfjárbúinu Refsmýri í Fellum. Tryggja þarf bólusetningu gegn veikinni á Héraði.

Í tilkynningu MAST segir að tekið hafi verið eftir veiklegri kind á túni fyrr í mánuðinum. Ánni var lógað í samráði við eiganda og sýni sent til greiningar á Keldum. Sýnið reyndist jákvætt fyrir garnaveiki.

Landinu er skipt upp í varnarhólf gegn sauðfjársjúkdómum og er Refsmýri í Héraðshólfi. Samkvæmt yfirlitslista frá MAST greindist garnaveiki á tveimur bæjum í hólfinu í fyrra og einum í Austfjarðahólfi í fyrra. Héraðshólfið er þekkt garnaveikisvæði.

Garnaveiki er ólæknandi smitsjúkdómur en hægt er að verja sauðfé með bólusetningum. Meðgöngutími í sauðfé er 1-2 ár og geta sýklarnir lifað í meira en ár umhverfis gripahús, við afréttargirðingar og fleiri svæði. Á bæjum sem veikin greinist gilda ýmsar takmarkanir til að hindra að smit breiðist út.

Takmarkanir gilda einnig um varnarhólfið þar sem óheimilt er að láta úr því fé, geitur eða nautgripi í 10 ár frá síðustu greiningu. Í gildi er reglugerð sem kveður á um skyldu til bólusetningar sauðfjár á nokkrum stöðum á landinu, þar með talið í Héraðshólfi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.