Gangur kominn á Úthéraðsverkefnið

„Verkefnið fer mjög vel af stað, við erum með áhugasaman og öflugan hóp íbúa með okkur í þessum undirbúningi og það verður spennandi að hitta íbúana síðan í ágúst, fara yfir vinnu okkar hóps og móta framhaldið,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar.

Hún og hennar teymi frá Austurbrú leiðir nú svokallað Úthéraðsverkefni áfram eftir kynningarfund um verkefnið sem fram fór af hálfu Múlaþings í vor. Þá voru nokkrir fundargesta ósáttir við gang mála og varð sátt um að Austurbrú tæki að sér að leiða vinnuna áfram og skyldi byrja á upphafsreit á nýjan leik til að um málið myndi skapast friður.

Í grunninn snýst verkefnið um svokallaða C-9 áætlun síðustu ríkisstjórnar um sérstakt átak í friðlýsingum sem liður í eflingu byggða. Úthérað var tilnefnt sem eitt slíkt svæði og fjármunir eyrnamerktir til þess á sínum tíma.

Jóna segir að sérstakur undirbúningshópur sem samanstendur af fulltrúum Austurbrúar auk eins aðila af öllum þeim fjórum svæðum sem hér um ræðir: Hjaltastaðaþinghá, Eiðaþinghá, Jökulsárhlíð og Hróarstungu, hafi þegar hist í liðnum maí. Næst skal funda síðla í ágúst en fram að þeim tíma er unnið að gagnaöflun og undirbúningi íbúafundar um málið.

„Þá stendur til að senda öllum íbúum á svæðunum spurningarlista í sumar þar sem við ætlum að reyna að ná utan um ýmsa þætti sem lið í þessum undirbúningi öllum. Við vonumst til að sem flestir gefi sér tíma til að svara þeim spurningum sem hópurinn leggur fyrir. Þannig byggjum við betur undir árangursríkan fund í ágúst og fáum skýra sýn á framhaldið.“

Af Úthéraði. Í sumar fá íbúar á þessu svæði sendan spurningalista vegna verkefnisins og hvaða sýn hver og einn hafi fyrir svæðið til framtíðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.