Gagnrýnisraddir á kynningarfundi vegna strandsvæðaskipulags Austurlands

„Ég kannast ekki við það að svæðisráðin séu að ganga erinda einhverra hagsmunaaðila. Við erum öll að reyna að gera þetta eftir okkar bestu getu og þekkingu,“ sagði Magnús Jóhannsson, formaður svæðisráða þeirra sem sett hafa saman tillögur að strandsvæðaskipulagi á Vest- og Austfjörðum.

Hörð gagnrýni og athugasemdir komu fram hjá allnokkrum gestum á sérstökum kynningarfundi vegna tillagna að strandsvæðisskipulagi Austfjarða sem Skipulagsstofnun stóð fyrir en stofnunin hefur verið sérstökum svæðisráðum til ráðgjafar vegna málsins. Svæðisráðin skipa bæði aðilar frá ríkinu og sveitarfélögunum sem hlut eiga að máli.

Strandsvæðisskipulag er skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði í fjörðum og flóum þar sem sett er fram stefna um framtíðarnýtingu og vernd strandsvæða. Þar með talin stefna um nýtingu svæða til eldis og andstæðingar fiskeldis gerðu sig gildandi á fundinum með margháttaðar athugasemdir. Sérstaklega voru spurningar tengdar Seyðisfirði og hugsanlegu fiskeldi í þeim firði áberandi hjá fundargestum en frestur til að gera formlegar athugasemdir er til 15. september.

Fram kom í máli Magnúsar að við svæðisráðin telji afar brýnt að auka vöktun á þeim svæðum þar sem fiskeldi er fyrir eða fyrirhugað. „Annars getum við ekki verið sannfærð um það að við séum ekki að skerða vistkerfin á þessum svæðum. Það má ekki gerast.“

Hann tók undir með fyrirspyrjendum að það hefði verið miður hvernig stjórnvöld stóðu að leyfisveitingu vegna fiskeldis á sínum tíma.

„Við getum öll verið sammála um það að það hefði verið æskilegra að standa svolítið öðruvísi að þessum málum þegar tekin var ákvörðun um það að setja fiskeldi á Austfjörðum og Vestfjörðum þá hefðu menn átt að taka svæðin út áður en byrjað var.“

Ekki mikið mark tekið á samráðshópi

Andrés Skúlason tiltók sérstaklega að miðað við framkomnar tillögur hefði sérstakt svæðisráð, sem samanstendur af aðilum bæði frá ríkinu og sveitarfélögum, ekki nýtt sér tillögur sem sérstakur samráðshópur setti fram en þeim hópi var ætlað að veita svæðisráðinu aðstoð.

„Heilt yfir þá verð ég að vísa til athugasemda sem ég gerði 2015. Það sem ég setti fram þá varðandi fiskeldi í Berufirði og víðar var að það yrðu ekki gefin út fleiri leyfi [til fiskeldis] fyrr en rannsóknum væri lokið. Það var ekki gert. Það var tekin sú ákvörðun að framkvæma fyrst og skipuleggja svo. Það hlýtur Skipulagsstofnun að vita best að er ekki rétta leiðin.“

Andrés vildi vita hvers vegna ráð væri gert fyrir fiskeldiskvíum í Mjóafirði þegar ekki væri búið að greina svæðið eða gefa út burðarþol fjarðarins.

„Maður spyr sig auðvitað að hve miklu leyti svæðisráðin eru að ganga erinda ákveðinna hagsmunaaðila. Það liggur fyrir að það er ekki skipulagt neitt annað en fiskeldi. Það eru einu hagsmunaaðilarnir sem koma þarna að borði.“

Fiskeldi í Seyðisfirði

Magnús Guðmundsson, brottfluttur Seyðfirðingur, gerði sömuleiðis margháttaðar athugasemdir við tillögurnar auk þess að taka heils hugar undir orð Andrésar.

„Í Seyðisfirði er ekki búið að úthluta leyfum til fiskeldis.  Það er í umsóknarferli. Skipulagsstofnun er búin að fara yfir umsóknarferlið og gera fjölda alvarlegra athugasemda. Við höfum orðað það svo, þau okkar sem erum að berjast fyrir að þetta verði ekki að Skipulagsstofnun sjálf hafi gefið umsókninni falleinkunn. Hver eru rök svæðisráðs fyrir því að valkostur B, það er að segja kosturinn sem að býður upp á staðbundna nýtingu var valinn fyrir áframhaldandi mótun strandsvæðaskipulags í Seyðisfirði.“

Nafni hans formaðurinn tók fram að margar þær ákvarðanir sem snerta Seyðisfjörð hefðu verið teknar áður en hann tók við formennsku í svæðisráðunum.

„Ég lít svo á að í fyrsta lagi þá liggur fyrir að það var búið að burðarþolsmeta Seyðisfjörð fyrir fiskeldi og þá lá einnig fyrir umsókn um fiskeldi. Ég held að þetta tvennt hafi skipt sköpum.“

Hrafnkell Proppé, sérfræðingur hjá Skipulagsstofnun, bætti við ekki væri hægt að taka undir að stofnunin hefði gefið fiskeldisumsókninni „falleinkunn.“

„Það er ekki endilega það sem gerðist. Það var hins vegar í umhverfismati bent á ýmis áhrif og umhverfismatsferlið er í rauninni gert til þess að reyna að draga fram áhrif af framkvæmdinni og vísa því áfram inn í leyfisveitinguna. Að reyna að bregðast við því með einhvers konar mótvægisaðgerðum. Til að stjórnvöld geti tekið ákvarðanir vitandi vits um hvaða áhrif viðkomandi framkvæmd hefur. Ég ætla ekki að draga neina fjöður yfir það að í áliti Skipulagsstofnunar um þess tilteknu framkvæmd er dregið fram að það eru víða neikvæð umhverfisáhrif. Þetta er ekki eina slíka framkvæmdin sem er samt farið með í framkvæmd. Brambolti okkar mannanna fylgja venjulega neikvæð umhverfisáhrif. Þannig að þegar þú segir falleinkunn þá segir álitið það ekki.“

Tæknilegir vankantar

Steinar Harðarson steig fram og sagði tillögur svæðisráðs beinlínis meingallaðar.

„Það hefur komið fram nýlega að við vissa útreikninga á Seyðisfirði þá hafa menn notast við vitlausar mælieiningar. Það er að segja að menn hafa notast við landmílur í stað sjómílna. Mér finnst þetta vera slíkur vankantur á tillögunum að það sé í raun ekki boðlegt að leggja þær fram óbreyttar. Finnst ykkur það boðleg stjórnsýsla þegar að svona vankantar koma í ljós að, og ég tek fram að þetta er ekki athugasemd heldur tæknilegur vankantur á tillögunum, að það verði ekki leiðrétt þessi tillaga áður en hún er kynnt almenningi?“

Magnús varð til svars en sagði þessu erfitt að svara.

„Eins og ég sagði í mínum inngangsorðum þá þykir okkur þetta afskaplega miður og að sjálfsögðu verður þetta leiðrétt. Tillögurnar voru auglýstar svona og er til umfjöllunar svona en þessu verður breytt og það mun hafa einhver áhrif á skipulagið. Ég get ekki svarað þessu öðruvísi.“

Hrafnkell Proppé og Ester Anna Ármannsdóttir frá Skipulagsstofnun og Magnús Jóhannsson, formaður svæðisráða, en þau þrjú sátu fyrir svörum á kynningarfundi Skipulagsstofnunar vegna tillagna að strandsvæðaskipulagi Austurlands. Skjáskot

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.