Orkumálinn 2024

Fyrstu tarfarnir felldir strax eftir miðnætti

Sex leiðsögumenn hafa tilkynnt sig til veiða á fyrsta degi hreindýraveiðitímabilsins sem hófst á miðnætti. Umsjónarmaður veiðanna segir alltaf spennu á fyrsta degi þótt færri séu líklega á ferðinni nú en oft áður.

„Það er alltaf ákveðin spenna fyrsta daginn. Það er þó hætt við að færri séu á ferðinni nú þar sem hann ber ekki upp á helgi. Það eru líkur á að veiðimönnunum fjölgi um næstu helgi,“ segir Jóhann G. Gunnarsson, sérfræðingur á Umhverfisstofnun sem heldur utan um veiðarnar.

Tveir tarfar voru felldir strax upp úr miðnætti á svæði fjögur, norðan í Fjarðarheiði. Búið er að tilkynna um þrjá aðra sem felldir hafa verið það sem af er degi á svæði sex, sunnan Reyðarfjarðar og Grímsár í Skriðdal að Djúpavogshreppi.

Jóhann segir að þoka á fjörðum hafi sett strik í reikninginn hjá veiðimönnum þar en henni hafi létt inn til landsins þegar liðið hefur á daginn. Nokkuð heitt er í veðri eystra sem gæti gert veiðimönnum erfitt fyrir.

Jóhann gengur út frá því að hreindýrin séu væn þar sem veturinn hafi verið snjóléttur og vorið gott. Nú sé meiri snjór í fjöllum en oft áður en það geti verið gott fyrir dýrin sem hafi stöðugt aðgengi að nýgræðingi eftir því sem snjórinn bráðnar.

Alls er heimilt að veiða 1451 dýr í ár, 408 tarfa og 1043 kýr. Veiðar á kúm hefjast 1. ágúst.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.