Fyrstu nýju íbúðahúsin í áratugi rísa á Borgarfirði eystri

Verið er að reisa fyrstu nýju íbúðahúsin í áratugi á Borgarfirði eystri. Bílalest kom með húsin til Borgarfjarðar í nótt.

Um er að ræða átta húseiningar sem verða að tveimur parhúsum með 4 íbúðum.

„Þetta eru töluverð tímamót hér hjá okkur þar sem nær ekkert hefur verið byggt af íbúðarhúsnæði á Borgarfirði undanfarin 36 ár,“ segir Jón Þórðarson fulltrúi sveitarstjóra á Borgarfirði eystri.

„Við ætluðum upphaflega að byggja þessi hús í fyrrasumar en fengum ekki nein tilboð í þá framkvæmd sem við gátum sætt okkur við,“ segir Jón. „Því ákváðum við að kaupa tilbúnar húseiningar frá Litháen.“

Fram kemur í máli Jóns að sennilega verður lokið við að reisa húsin fyrir næstu helgi. Þá á eftir að setja inn lagnir og leiðslur og ganga frá öllu innandyra.

Jón segir að um leiguhúsnæði verði að ræða á vegum Borgarfjarðar eystri og að þegar séu komnar umsóknir um allar íbúðirnar. „Það stefnir í umframeftirspurn eftir þessu húsnæði,“ segir hann.

Aðspurður um hvenær fyrstu íbúarnir munu flytja inn segir Jón að það væri ánægjulegt ef slíkt gerist fyrir áramótin.

Mynd:  Guðrún Ástrós Bergsveinsdóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.