Orkumálinn 2024

Fyrstu makrílfarmarnir komnir á land

Börkur kom í gærmorgun með fyrsta stóra makrílfarminn að landi í Neskaupstað og Vilhelm Þorsteinsson eftir hádegi í dag. Fleiri íslensk skip eru að veiðum í Smugunni en fiskurinn er dreifður.

Börkur kom að landi í gærmorgunn með 740 tonn af afla. Að sögn Grétars Arnar Sigfinnssonar, rekstrarstjóra útgerðar hjá Síldarvinnslunni, var nokkuð af síld innan um makrílinn en síldin þyki ekki sérstök á þessum tíma. Makríllinn hafi hins vegar litið ágætlega út, að mestu leiti stór og fínn þó í honum sé dálítil áta.

Skip frá Hornafirði og Vestmannaeyjum leituðu í júní að makríl fyrir sunnan land en þær ferðir báru lítinn árangur. Í þessari viku hafa íslensku skipin því látið úr höfn og stefnt austur í Smugu. Börkur var fyrstur á svæðið, á heimleið úr slipp í Danmörku.

Börkur fór aftur á miðin um klukkan hálf ellefu í morgun en Vilhelm Þorsteinsson kom inn til löndunar um klukkan hálf fjögur. Beitir og Barði eru á miðunum og verið að gera Bjarna Ólafsson tilbúinn til brottfarar. Þessi fimm skip hjálpast að við veiðarnar þannig þau skiptast á að sigla heim með þann afla sem sameiginlega hefur verið sóttur. „Þá erum við alltaf með skip undir í vinnslunni því það er svo langt að sækja þetta,“ segir Grétar. Af öðrum skipum við veiðar í Smugunni má nefna Víking, Hoffell og Jón Kjartansson.

Veiðin hefur farið rólega af stað en vonir eru um að hún glæðist. „Það sést fiskur en hann er ekki búinn að koma nógu mikið saman þannig að kraftur verði í veiðinni. Það hlýtur að gerast fljótlega. Færeyingarnir hafa fært sig sunnar, inn í sína lögsögu, eins og þaðan væru fréttir um meiri þéttleika.“

Grétar segir ómögulegt að spá fyrir um hvert makríllinn leiti og hvort hann komi síðar í sumar inn í íslenska lögsögu. „Það fer eftir hita- og birtu hvar hann er að éta. Sunnan við Ísland hefur verið hlýr sjór svo við vorum að vona að hann yrði meira innan okkar lögsögu, sem getur enn gerst.“

Í fyrra var yfir 10% af íslenskum makríl sent beint til Úkraínu en sé einnig bætt við þeim fiski sem fór til Litháen, sem er algeng flutningsleið til Úkraínu, hækkar hlutfallið í 28%. Grétar segir útlitið á mörkuðum fyrir makrílinn ágætt þótt þessi tiltekni markaður sé mögulega lokaður. „Eftir því sem ég kemst næst er útlitið á mörkuðum ágætt. Það borða rosalega margir makríl og því er alltaf spurn eftir honum.“ 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.