Fyrstu íbúðarhúsin á Seyðisfirði í tólf ár í undirbúningi

Undirbúningur er hafinn að byggingu tveggja nýrra íbúðarhúsa á Seyðisfirði en tólf ár eru liðin síðan þar var síðast byggt íbúðarhús. Bæjaryfirvöld skoða að auki byggingu íbúðakjarna fyrir 55 ára og eldri með þá von að glæða húsnæðismarkaðinn á staðnum lífi.

„Stærsta verkefnið sem beið okkar þegar við tókum við eftir kosningarnar í fyrra var að koma húsbyggingum af stað eftir of langt hlé. Hér hefur hvorki verið leigumarkaður né húsnæði til sölu,“ segir Hildur Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði.

Felld voru niður gatnagerðargjöld til tólf mánaða og í sumar var staðfest deiliskipulag fyrir tvö ný íbúðahverfi, við Múlaveg og Hlíðarveg. Þar er búið að sækja um tvær lóðir en auk þess er þriðja lóðaumsóknin í vinnslu. Jarðvinna er þegar hafin á þeim fyrir einbýlishús. „Það skiptir öllu máli að koma boltanum af stað“ segir Hildur.

Þá er undirbúningur hafinn við búsetukjarna fyrir fólk yfir 55 ára aldri. Samkvæmt skipulagi á hann að rísa nálægt sjúkrahúsinu. „Sú vinna er ekki langt komin en verður haldið áfram í vetur. Áhugasamur aðili hefur leitað til okkar en vinnan er öll á frumstigi.“

Með búsetukjarnanum er vonast til að hreyfing komist á húsnæðismarkaðinn á Seyðisfirði. „Við teljum að hann myndi leysa annan vanda með að losa um stóru húsin hér fyrir yngra fólk með börn.“

Áhugi meðal 55 ára og eldri á minni íbúðum

Húsnæði fyrir 55 ára og eldri var efst í húsnæðiskönnun sem gerð var fyrir Seyðisfjarðarkaupstað í vor. Sendir voru út spurningalistar til íbúa og bárust ríflega 230 svör sem nýtt voru til úrvinnslu. Í könnunni kom kom sterkur vilji hjá þessum aldurshóp til að leigja eða kaupa íbúðir í slíkum kjarna og telja skýrsluhöfundar að sú eftirspurn eigi frekar eftir að vaxa. Einnig virtist vilji hjá fólki á aldrinum 18-35 ára að komast í stærra húsnæði.

Í skýrslunni kemur fram að undanfarin ár hafi talsvert vantað upp á að jafnvægi væri á húsnæðismarkaðinum á Seyðisfirði. Núverandi íbúðarhúsnæði sé fullnýtt, eftirspurn til staðar en markaðurinn óvirkur. Þessi skortur hái bæði atvinnustarfsemi og þróun og uppbyggingu á staðnum.

Bent er á að síðustu ár hafi færst í notkun að íbúðarhúsnæði sé nýtt sem gistihúsnæði fyrir ferðamenn og kunni það að eiga þátt í skortinum. Eins hafi upp úr síðustu aldamótum færst í vöxt að fólk sem ekki býr á Seyðisfirði að staðaldri kaupi hús og dvelji þar aðeins hluta úr ári. Utan þess standi húsið autt. Þá kemur fram að meðalfjöldi íbúa í hverri íbúð á staðnum sé 1,67 sem sé nokkuð lágt, landsmeðaltalið er 2,53 íbúar og 2,76 hjá öðrum sveitarfélögum á Austurlandi.

Ráðgjöf frá ríkinu

Þessu til viðbótar hefur Seyðisfjörður verið valinn til þátttöku í sérstöku átaki ríkisins til uppbyggingar húsnæðis á landsbyggðinni. Fulltrúar frá Íbúðalánasjóði komu austur á Seyðisfjörð til fundar í lok september vegna þess. Að auki hefur verið fundað með aðstoðarmanni félagsmálaráðherra.

„Þetta hafa verið góðir fundir, við höfum fundið mikla ánægju með okkar aðgerðir eins og að fella niður gatnagerðargjöldin og vinna að íbúðarkjarnanum. Þessir aðilar hafa sýnt áhuga á aðkomu að honum. Þeirra hlutverk verður þó alltaf fyrst og fremst að vera okkur til leiðsagnar og stuðnings,“ segir Hildur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.