Fyrsti makrílfarmurinn til Fáskrúðsfjarðar

Hoffell, skip Loðnuvinnslunnar, kom til hafnar á þriðja tímanum í nótt með fyrsta makrílfarminn sem berst til Fáskrúðsfjarðar á þessari vertíð. Fyrsti farmurinn er viku fyrr á ferðinni en í fyrra. Veiði er farin að glæðast eftir hæga byrjun.

„Þetta er mjög fínn makríll, 500 grömm að meðalvigt og byrjaður að ná upp fitunni. Við erum mjög ánægðir með þetta,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar.

Skipið kom til hafnar með 920 tonna afla, 780 tonn af makríl og 140 tonn af síld. Það kom til Fáskrúðsfjarðar á fimmtudag eftir að hafa verið í slipp í Færeyjum í um fjórar vikur að lokinni kolmunnavertíð. Það lét úr höfn á föstudagskvöld og kom aftur heim um klukkan hálf þrjú í nótt.

Túrinn tók því aðeins um tvo og hálfan sólarhring. „Skipið byrjaði á að taka eitt hal af síld áður en það hélt í vestur á eftir makrílnum. Það gekk allt upp og við erum mjög ánægð,“ segir Friðrik.

Allra fyrstu skipin héldu til makrílveiða um miðjan júní og hafa Venus og Víkingur þegar fært fimm farma til Vopnafjarðar, alls ríflega 2300 tonn. Fyrstu skipin veiddu ágætlega en þegar fjölgaði á miðunum dró úr henni. Veiðin tók að glæðast um helgina og eru Börkur NK, Aðalsteinn Jónsson SU, Jón Kjartansson SU og Venus NS meðal þeirra skipa sem eru á miðunum, sem eru suður af Vestmannaeyjum. Víkingur er á leið til Vopnafjarðar og er væntanlegur þangað um klukkan tíu í kvöld. Um tvo sólarhringa tekur að landa úr Hoffellinu en það fer að því loknu til veiða aftur,.

Íslensku skipin eru komin fyrr til makrílveiða en oft áður, en til samanburðar kom fyrsti makrílfarmurinn til Fáskrúðsfjarðar þann 15. júlí í fyrra. „Vanalega höfum við verið á makrílveiðum út september þar sem við höfum getað elt makrílinn alveg að norsku lögsögunni. Í fyrra hætti veiðin 10. september. Menn vilja vera fyrr á ferðinni ef það gerist aftur. Makríllinn er óútreiknanlegur fiskur sem fer mjög hratt yfir.“

En þótt makríllinn líti vel út segir Friðrik að enn sé of snemmt að segja nokkuð til um ástandið á mörkuðum. „Staðan er í lagi en það er lítið hægt að segja um hana enn. Færeyingar byrja að veiða um miðjan ágúst, Norðmenn í september og svo vitum við ekki enn hvaða áhrif Covid-faraldurinn hefur haft.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.