Fyrsti fundur ríkissáttasemjara á landsbyggðinni í áratugi

Fundað hefur verið í kjaradeilu AFLs Starfsgreinafélags og Rafiðnaðarsambands Íslands við Alcoa Fjarðaál á Egilsstöðum í dag og í gær. Ríkissáttasemjari kom austur til að stýra fundum og mun þetta vera í fyrsta sinn í áraraðir sem haldnir eru fundir á hans vegum utan höfuðborgarsvæðisins.

„Mér fannst þetta blasa við. Fyrir því eru tvær megin ástæður. Í fyrsta lagi er minna óhagræði og kostnaður af því að við komum 1-2 frá Reykjavík heldur en 12-15 manns frá Austfjörðum.

Síðan á þetta sérstaklega við nú á tímum Covid þar sem mælst er til þess að færri séu á ferðum milli landshluta.

Hér eru frábærar aðstæður, einfalt að leigja góða fundaraðstöðu auk þess sem það er gaman að koma hingað. Þess vegna fannst mér sjálfsagt og eðlilegt að færa fundina hingað,“ segir Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari.

Hann segist ekki vita nákvæmlega hvenær samningalota á vegum ríkissáttasemjara var síðast haldin utan höfuðborgarsvæðisins en upplýsingar hans séu að það hafi ekki gert síðan á dögum Guðlaugs Þorvaldssonar, sem sat í embættinu frá stofnun þess árið 1979 til 1994.

Covid-viðræður

Covid-faraldurinn setti svip sinn á viðræðurnar. Aðalsteinn og Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins voru þeir sem komu til fundarins úr Reykjavík og fóru þeir báðir í skimun fyrir ferðina.

Við samningaborðið var haldið tveggja metra fjarlægð milli fólks eða notaðar grímur ef það var ekki hægt. Þá var í gær aðeins hægt að hafa 10 manns inni í hverjum fundarsal í gær en 20 í gær. Þetta er þó ekki nýtt fyrir sáttasemjara.

„Það hefur verið þétt dagskrá hjá okkur frá því áður en faraldurinn skall á, mörgum samningum verið lokið á meðan honum hefur staðið þannig við erum komin með góða reynslu af þessu. Það er komin reynsla af vinnulagi þar sem blandað er saman fjarfundum og svo fundum þar sem fólk hittist í persónu en gætt er að sóttvörnum.“

Gott samtal þótt staðan sé snúin

Viðræður um gerð nýs kjarasamnings í álverinu sigldu í strand fyrir jól og í kjölfarið vísuðu stéttafélögin deilunni til ríkissáttasemjara. Á föstudag var haldinn fjarfundur en nú unnið áfram að lausn deilunnar.

Trúnaður ríkir um hvaða málefni eru rædd á fundunum en Aðalsteinn segir þá hafa verið virkilega góða. „Staðan í viðræðunum er þung og snúin, sem skýrir hvers vegna leitað var til ríkissáttasemjara, en samtalið hefur verið virkilega gott.

Við undirbjuggum vel hvað við vildum ræða hér á fjarfundinum og síðan hefur verið fundað bæði í stærri hóp og smærri vinnuhópum. Það gekk ágætlega þótt við næðum ekki að klára viðræðurnar. Báðir samningsaðilar eru nú með verkefni á sínu borði, við ræðum saman í lok vikunnar og ég reikna með að næsti fundur verði strax í næstu viku á Egilsstöðum,“ segir Aðalsteinn.

„Í kjaraviðræðum þá skoðum við og ræðum þau samningsatriði sem koma frá hvorum samningsaðila. Stundum gerum við það í stórum hóp en oft er þægilegra að kryfja þau í smærri hópum. Síðan er skoðað hvernig einstök atriði tengjast því það er ekki samið um neitt fyrr en öll atriði eru frágengin því það þarf að vera jafnræði og samhengi í samningunum.

Við heyrum stundum að fundur hjá ríkissáttasemjara hafi verið árangurslaus því honum lauk ekki með samningi. En þótt það gerist ekki þýðir það ekki að fundurinn sé árangurslaus. Árangurinn felst í að skýra og prófa mismunandi lausnir og sjónarmið. Það getur því allt stefnt í rétta átt þótt það líti ekki þannig út utan frá.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.