Fyrsta skóflustungan tekin að baðstað Vakar

Guðmundur Davíðsson, framkvæmdastjóri Hitaveitu Egilsstaða og Fella, tók á mánudag fyrstu skóflustunguna að baðstað Vakar Baths sem rísa mun við Urriðavatn á Fljótsdalshéraði. Gert er ráð fyrir að staðurinn opni eftir ár.

„Þetta er stór áfangi. Verkefnið er komið á góðan stað og ef ekki verða neinir óvæntir atburðir þá opnum við í byrjun næsta sumar,“ segir Heiður Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri verkefnisins.

„Við erum búin að hanna fyrsta áfanga þannig við getum hafist handa og höldum síðan áfram hönnun samhliða uppbyggingu.“

Guðmundur átti hugmyndina að verkefninu fyrir 1999. Hitaveitan er þar með heitavatnsholur fyrir þéttbýlið á Egilsstöðum og Fellum og vildi Guðmundur gera ylströnd við vatnið sem yrði ókeypis afþreying fyrir heimamenn. Kostnaður þess verkefnis var talinn 50 milljónir.

Kostnaðurinn við baðstað Vakar er hins vegar talinn um einn milljarð króna en um er að ræða 1000 fermetra byggingu og 500 fermetra laugasvæði í viðbót.

Í kynningu á verkefninu í apríl var greint frá því að framkvæmdir hæfust nú ef tækist að ljúka fjármögnun og fá öll tilskilin leyfi, frekar yrði frestað um ár frekar en opna í lok sumars. Leyfi og fjármögnun liggja nú fyrir og framkvæmdir eru hafnar. „Við erum að ljúka löngu ferli og erum tilbúin að byrja,“ segir Heiður.

Stefnt er að því að klára alla jarðvinnu í sumar og reisa húsið í lok sumars og haust þannig að hægt verði að sinna innivinnu næsta vetur. Með því yrði hægt að opna staðinn í júní.

Að baki Vök Baths standa annars vegar Jarðböðin í Mývatnssveit og hins vegar heimamenn. Stjórn þess skipa Steingrímur Birgisson sem einnig er stjórnarformaður Jarðabaðanna í Mývatnssveit, Grímur Sæmundssen forstjóri Bláa lónsins og heimamennirnir Hilmar Gunnlaugsson, Ívar Ingimarsson og Magnús Ásmundsson.

Heiður segir hópinn ekki hafa áhyggjur af fregnum um minni fjölgun ferðamanna á landinu en spár höfðu gert ráð fyrir.

„Þótt þeim fjölgi ekki lengur jafn hratt vonumst við til að fá nógu stóran hluta af kökunni til að geta bætt okkar innviði. Þetta er mikilvæg viðbót sem á að virka sem segull til að fá ferðafólkið til okkar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.