Fyrsta Regnbogahátíð Austurlands á morgun

„Við gerðum þetta reyndar í fyrra en það var bara fyrir stjórnina og vini en nú förum við alla leið og vonum að sem flestir komi og taki þátt,“ segir Tara Tjörvadóttir, formaður Hinsegin Austurlands.

Síðdegis á morgun fer fram fyrsta Regnbogahátið hinsegin fólks á Austurlandi en veg og vanda af skipulagningu þess viðburðar á félagið Hinsegin Austurland. Dagskráin verður formlega sett klukkan 17 á morgun á planinu við Hús Handanna á Egilsstöðum

„Þaðan förum við saman að göngustíg við Landsbankahúsið þar sem við höfum fengið leyfi til að mála regnbogalitina á gangstéttina. Það gerum við saman og leyfum öllum að grípa í pensil sem vilja. Að því loknu hefst gangan sjálf upp Fagradalsbraut og alla leið inn í Tjarnargarðinn. Þar verður ýmislegt skemmtilegt í boði fyrir alla fjölskylduna auk þess sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra flytur ávarp auk annarra. Svo lokar Daníel Arnarsson, söngvari, dagskránni með gleðibombu.“

Tara segir að félagið ætli sér jafnframt að vera með dagskrá samhliða LungA á Seyðisfirði um helgina og vonir standa til að Hinsegin Austurland verði einnig með dagskrá á Fáskrúðsfirði helgina 23. - 23. júlí. Það er þó ekki alveg frágengið.

Gleðigöngur hafa verið farnar á Seyðisfirði undanfarin ár samhliða Gay Pride í Reykjavík en aldrei hefur slík ganga verið farin á Egilsstöðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.