Fyrsta myllan sem grafin hefur verið upp á Íslandi

Umfangsmikil fornleifarannsókn hefur staðið yfir á Seyðisfirði í sumar þar sem um tuttugu fornleifafræðingar hafa verið að störfum.

Rannsóknin er í höndum fyrirtækisins Antikva og leiðir Ragnheiður Traustadóttir rannsóknina og Rannveig Þórhallsdóttir er uppgraftarstjóri. Áætlað er að rannsóknin muni taka tvö ár en svæðið sem er til rannsóknar er það sem fara mun undir ofanflóðamannvirki á næstu árum með byggingu Bakkagarðs, Öldugarðs og Fjarðagarðs.


Í ár hefur verið rannsakað bæjarhóll þar sem hús Gests Sigurðssonar hefur sennilega staðið, útihús og mylla við Mylluholt. „Við erum búin að grafa upp mylluna við Mylluholt og er það fyrsta myllan sem grafin hefur verið upp í fornleifarannsókn á Íslandi. Við teljum að hún hafi verið byggð um 1800 en hún er undir gjóskulagi Öskju frá 1875 og hefur því verið hætt að nota hana fyrir þann tíma. Við fundum leifar af mylluhjólinu sem hefur stýrt myllunni og þá sjáum við hvernig vatnið var leitt frá myllunni og hvernig vatnsflæðinu var stjórnað. Það væri vel mögulegt að endurgera þessa myllu og við erum búin að gera þrívíddar-módel af henni,“ segir Ragnheiður Traustadóttir.

 

Ótrúlegur fjöldi gripa
Svæðið sem nú er til rannsóknar er norðvestan við gamla bæjarstæðið í Firði og þar hafa fundist fjöldi minja. „Þarna hefur verið vísir að þorpi sem varð fyrir snjóflóði úr Bjólfi árið 1885 og nú er verið að grafa upp hús á einu þeirra bæjarstæða sem urðu undir í snjóflóðinu og virðist kjallarinn vera best varðveittur. Þarna eru þó sennilega leifar frá þremur byggingaskeiðum; tveimur frá því fyrir snjóflóðið, auk þess sem yngra hús hefur verið byggt eftir það. Gjóska frá Öskju 1875 hefur fundist við minjarnar og undir þeim gjóska frá Veiðivötnum árið 1477 og hjálpar þetta við aldursgreininguna. Vegna þess hve fáar minjar hafa varðveist um snjóflóðið árið 1885 er mikilvægt að rannsaka allt þetta bæjarstæði vandlega. Eftir þessar hamfarir voru bústaðir manna færðir neðar en svæðið aðallega nýtt undir ýmis konar mannvirki tegnd búskap og má þar því finna tóftir fjárhúsa, stekkja og kvía, garðhleðslur og fleiri landbúnaðarminjar. Aðrar merkar minjar sem einkenna svæðið tengjast hersetu Breta og síðar Bandaríkjamanna og bera mannvirki eins og skotbyrgi, skotgrafir og byssuhreiður umsvifum þeirra vitni,“ segir Ragnheiður.

Ótrúlegur fjöldi gripa hefur fundist í uppgreftrinum og þá að mestu hlutir sem tengjast búskap. „Við höfum fundið gríðarlegt magn af leirkerjum, oft eru slík leirker fá, bætt og gömul þegar þau finnast en svo er ekki í þessu tilfelli. Það er svo sem ekki hægt að slá neinu föstum um það hvað veldur en möguleg ástæða gæti verið að aðgengi þeirra sem bjuggu á Seyðisfirði að leirkerjum hafi verið betra en margra annarra, erlend áhrif gætu þar átt hlut að máli eins og t.d. samskipti við Norðmenn og aðra erlenda menn sem voru tíðir gestir. Þá höfum við einnig fundið gripi úr gleri og járni, verkfræði og annað sem tengist búskap.“

 

Markmiðið að gera sögunni skil
„Jörðin geymir mörg tímabil og nokkur tími hjá okkur fór í að komast í gegnum hluti sem við höfðu kannski ekki búist við. Herinn hafði aðsetur á þessu svæði og það var pyttur þarna þar sem var nokkuð magn af dósamat frá hermönnum. Þá hefur jörðin verið notuð sem ruslahaugur og þar má m.a. finna leifar af hestum, rollum, gæsum, hundum og fleiri dýrum,“ segir Ragnheiður.

Allar þær minjar sem eru á svæðinu munu eyðileggjast með tilkomu ofanflóðamannvirkjanna en Ragnheiður segir það vera markmið að saga glatist ekki meðal almennings. „Það verða lagðar gönguleiðir í kringum þessi gríðarlegu mannvirki. Við höfum verið að taka þrívíddar- og drónamyndir af svæðinu. Stefnan er að útbúa skilti á völdum stöðum í kringum mannvirkin þar sem sögunni á svæðinu verða gerð góð skil,“ segir Ragnheiður.

„Við erum komin sæmilega langt á leið og stefnum að því að klára í ár í ágúst. Þá tekur við frekari rannsókn á gripum sem og úrvinnsla á rannsókninni. Við komum svo aftur á næsta ári og hefjumst handa við að grafa upp landnámsbæinn í Firði,“ segir Ragnheiður að endingu.

Myndin sýnir mylluna sem grafin var upp á Seyðisfirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.