„Fyrsta menningarhátíð barna- og ungmenna sem haldin er í heilum landshluta“

„Þetta er fyrsta hátíðin og sem vonandi er komin til að vera og verður enn öflugri á næstu árum,“ segir Signý Ormarsdóttir um menningarhátíð barna- og ungmenna (BRAS) sem sett verður á laugardaginn og stendur út september. Hátíðin er áhersluverkefni Sóknaráætlunar Austurlands 2018.


BRAS verður sett á þremur stöðum á Austurlandi á sama tíma á laugardaginn, en mun að mestu fara fram í menningarmiðstöðvunum í fjórðungnum. Þessa vikuna verða fjölbreyttar smiðjur fyrir öll börn í leikskólum og grunnskólum Fjarðabyggðar. Einkunnarorð hátíðarinnar er þora, vera, gera og er lögð sérstök áhersla að leyfa börnum að vera þátttakendur í smiðjum ásamt því að njóta listviðburða.

Hátíðin á sér nokkurn aðdraganda
Austurbrú hefur umsjón með verkefninu í samstarfi við Skólaskrifstofu Austurlands og menningarmiðstöðvarnar á Austurlandi; Skaftfell, Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs/Sláturhúsið og Menningarstofa Fjarðabyggðar. Sveitarfélögin Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað hafa unnið menningarstefnu þar sem mikil áhersla er á eflingu menningar fyrir börn og ungmenni. Þessi sveitarfélög verða með listasmiðjur fyrir skóla og viðburði á hátíðinni og hafa lagt til bæði vinnu og fjármagn í BRAS.

Aðspurð um tilurð hátíðarinnar segir Signý; „Undirbúningur og umræða um að halda menningarhátíð barna og ungmenna hér á Austurlandi hefur nokkurn aðdraganda. Austurbrú ásamt menningarmiðstöðvunum, Skólaskrifstofu Austurlands ásamt sveitarfélögunum Fljótsdalshéraði og Fjarðabyggð byrjuðum þessa umræðu fyrir um ári síðan. Þessi sveitarfélög hafa unnið menningarstefnu þar sem mikil áhersla er á að efla menningu fyrir börn og ungmenni. Í framhaldi af umræðunni hélt Austurbrú málþing síðastliðinn vetur sem við kölluðum Kúltiveraðir krakkar. Þar komu fyrirlesarar víða að sem allir hafa unnið með menningaruppbyggingu barna og ungmenna. Á þessu málþingi kom fram mikill áhugi á því að halda hátíð fyrir börn og ungmenni á Austurlandi líkt og gert er í nokkrum sveitarfélögum. Þar hefur barnamenningarhátíð Reykjavíkur verið mest áberandi síðustu ár. Þetta er fyrsta menningarhátíð barna- og ungmenna sem haldin er í heilum landshluta eftir því sem ég best veit“

Hátíðin vonandi komin til að vera
„Í þeim þjóðfélagsbreytingum sem nú eiga sér stað með fjórðu iðnbyltingunni er mjög mikilvægt að börn læri skapandi hugsun og kynnist listum og menningu út frá sem víðustu sjónarhorni. BRAS á vonandi eftir að auka möguleika barna til listsköpunar og uppgötvunar á eigin listrænum hæfileikum og til þess auka getu barna og ungmenna til að takast á við breytingar á vinnumarkaði.

Mikil áhersla hefur verið á auka listir og menningu fyrir börn síðustu ár og í kjölfar menningarstefnu ríkisins kviknaði meðal annars verkefnið List fyrir alla. Barnamenningarhátíð er haldin árlega í Reykjavík með miklum ágætum og fleiri sveitarfélög hafa fylgt í kjölfarið.Menningarmiðstöðvarnar á Austurlandi hafa skilgreint fræðsluhlutverk fyrir börn og nú sameinast þau í að halda slíka hátíð í samstarfi við Austurbrú, Skólaskrifstofu Austurlands og fleiri aðila.“

 

BRAS2

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.