„Fyrsta bókaða giftingin mín er í byrjun ágúst“

„Mig hefur lengi langað til að geta gefið fólk saman,“ segir Hákon Guðröðarson á Norðfirði, en hann hlaut á dögunum löggildingu til embættisverka á vegum Siðmenntar.


Hákon var annar tveggja Austfirðinga sem hlaut löggildingu að þessu sinni, en Svavar Pétur Eysteinsson er nú einnig með vígsluréttindi hjá Siðmennt. Auk þeirra tveggja er Kristín Amalía Atladóttir starfandi hjá Siðmennt á Austurlandi með sömu réttindi.

„Ég er semsagt athafnastjóri, sem útleggst „celebrant“ á ensku og það merkir í raun trúlaus klerkur sem þjónar við trúlausa athafnaþjónustu,“ segir Hákon sem nú hefur leyfi til að gifta, ferma, gefa barni nafn og jarða.

„Eins og varðandi giftingar myndi ég segja að þetta væri mitt á milli sýslumanns og kirkjuathafnar. Hjá sýslumanni eru bara lesnar nokkrar lögfræðiklausur um hvað það þýðir að gifta sig. Siðmennt vill bjóða upp á athöfn þar sem er hlegið, grátið og klappað. Mikið er lagt upp úr góðum ræðuskrifum og hugvekjum og athöfnin fer bara eftir smekk hvers og eins.“

Bjarni Jónsson kveikti neistann
Hákon segist spenntur fyrir nýju verkefni. „Ég hef reyndar tekið að mér að gifta, en bara svona „til sýnis“ – þar sem vinir eru búnir að gifta sig hjá sýslumanni og langar í einhverja smá athöfn,“ segir Hákon, en það var svo um áramót sem hann sá auglýsingu þar sem Siðmennt kallaði eftir nýjum athafnastjórum.

„Ég fór og hitti Bjarna Jónsson, framkvæmdastjóra Siðmenntar, sem kveikti í mér mikinn neista um að þetta starf myndi henta mér og mínum lífsskoðunum fullkomlega. Ég fór svo í inntökuferli þar sem ég var einn af 15 sem komst inn úr 40 manna hóp sem sótti um. Við tók stíf kennsla og þjálfun sem svo skilaði mér langþráðu leyfisbréfi.“

Mikill vöxtur í giftingum og fermingum
Hákon segir að mikill vöxtur sé í giftingum og fermingum hjá Siðmennt. „Það er til dæmis orðið alveg rosalega algengt að útlendingar komi hingað til lands til að gifta sig og stór hluti þeirra kýs trúlausar athafnir. Það voru svo yfir 600 ungmenni sem fermdust borgaralega í ár og enn fleiri sóttu undirbúningsnámskeiðið sem er talið mjög gott veganesti út í lífið. Minnstur vöxtur er í útförum enn sem komið er, enda sem betur fer stærstu hluti þeirra sem látast af þeirri kynslóð sem er fastheldin á kirkju.“

Uppbygging framundan
Hákon segir að hann verði með bækistöðvar sínar fyrir austan þar sem hann er búsettur í Neskaupstað, en vel geti verið að hann hjálpi til á öðrum landsvæðum ef þarf. „Það verða oft miklir álagstímar fyrir sunnan yfir hásumarið þegar sem flestar giftingar eru. Ég tel einnig að við þrjú sem erum starfandi á Austurlandi munum vinna náið með Norðurlandsdeildinni og getum þá hlaupið í skarðið fyrir hvert annað. Annars er það okkar hlutverk núna að byggja upp starfið hér fyrir austan og kynna það.“

„Frábært að það sé loksins komið að þessu“
Hákon segir það óneitanlega sérstaka tilfinngu að takast á við nýtt og krefjandi hlutverk. „Það er rosa fullorðins að fá þetta ábyrgðarhlutverk og að skrifa undir drengskap. Það er bara frábært að það sé loksins komið að þessu, en síðan ég hóf þjálfun hef ég þurft að vísa frá mér athöfum vegna þess að ég var ekki kominn með réttindi. Þetta er alveg ofboðslega skemmtilegt, en fyrsta bókaða giftingin mín er í byrjun ágúst.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar