Orkumálinn 2024

Fyrst göng undir Fjarðarheiði, síðan til Norðfjarðar um Mjóafjörð

Starfshópur sem fyrrum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipaði til að meta jarðgangakosti til Seyðisfjarðar telur það hagkvæmast fyrir Mið-Austurland að gera jarðgöng frá Egilsstöðum til Seyðisfjarðar og þaðan áfram til Mjóafjarðar og loks Norðfjarðar. Fjarðarheiðargöng yrðu fyrsti áfanginn í þessari tengingu.

Þetta kemur fram í skýrslu starfshópsins sem Sigurður Ingi Jóhannsson, núverandi ráðherra málaflokksins, kynnti á fundi á með austfirsku sveitarstjórnarfólki Egilsstöðum í morgun. Skýrslan var gerð opinber á vef ráðuneytisins strax að loknum fundi. Ráðherrann mun síðan fara betur yfir niðurstöðuna á opnum fundi á Hótel Héraði klukkan 18:00 í dag.

Hópurinn var skipaður haustið 2017 af forvera hans, Jóni Gunnarssyni. Skýrslunnar hefur verið beðið með óþreyju enda átti hópurinn að skila af sér fyrir lok þess árs. Hópnum var ætlað að meta gangakosti sem hefðu það hlutverk að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar, styrkja byggð og atvinnulíf á Seyðisfirði og Austurlandi öllu.

Starfshópurinn aflaði bæði nýrra gagna, svo sem skýrslu frá KPMG um samfélagsþróun mismunandi gangakosta og fór yfir eldri gögn, svo sem skýrslur Vegagerðarinnar um málið 30 ár aftur í tímann.

Mesti ábatinn af hringtengingu

Bornir voru saman fjórir mismunandi kostir. Í fyrsta lagi Fjarðarheiðargöng. Í öðru lagi Fjarðarheiðargöng með göngum til Mjóafjarðar og Norðfjarðar. Í þriðja lagi göng milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar og Mjóafjarðar og Norðfjarðar og úr Mjóafirði undir Mjóafjarðarheiði til Héraðs. Fjórði kosturinn voru göng milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar og Mjóafjarðar og Héraðs.

Tillaga hópsins er að velja kost númer tvö, það er göng undir Fjarðarheiði og þaðan áfram til Norðfjarðar um Mjóafjörð. Í greiningu KPMG á samfélagslegum ábata er sá kostur talinn skila bæði samfélaginu á Seyðisfirði og Austurlandi öllu mestu.

Fjarðarheiðargöng yrðu fyrsti áfanginn í þeirri framkvæmd. Þar er tekið tillit til þess að vilji Seyðfirðinga sé skýr auk þess sem þeir sæki mest af sinni verslun- og þjónustu í Egilsstaði. Þá er vísað til ályktana Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi, Alþingis og þorra kjörinna fulltrúa, íbúa og atvinnulífs sem rætt var við í greiningu KPMG.

Fjarðarheiðargöng

Fyrir Fjarðarheiðargöng hafa tvær veglínur verið til skoðunar, annars vegar með gangamunna Héraðsmegin við Lönguhlíð upp af Egilsstöðum, hins vegar við Dalhús yst í Eyvindardal. Ekki skiptir máli hvor línan er valin en miðað er við Dalhúskostinn í útreikningum. Seyðisfjarðarmegin yrði gangamunninn í um 130 metra hæð yfir sjó, gegnt Gufufossi.

Göngin yrðu 13,4 km að lengd og vegir utan þeirra 3-4,5 km. Þau myndu stytta núverandi leið milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar um 6 km, úr 27 í 21.

Í skýrslunni er varað við að útilokað sé að meta kostnað við gerð jarðganga sem ekki sé búið að hanna. Fjarðarheiðargöng yrðu löng, bæði á íslenskan og alþjóðlegan mælikvarða og ekki er ljóst hvaða áhrif það hefði á kostnað en ljóst sé að það geri loftræstingu dýrari, bæði við framkvæmdir og á rekstrartíma. Að auki hafa öryggiskröfur í jarðgöngum aukist. Starfshópurinn notar því 2,5 milljarða króna á hvern kílómetra sem viðmiðun og áætlar að Fjarðarheiðargöng kosti 33,5 milljarða.

Fjarðarheiðarleiðin er sú eina af þeim sem skoðaðar voru þar sem farið hafa fram jarðfræðirannsóknir. Berglögin næst Seyðisfirði eru talin traust en breytilegri og því síðri til gagnagerðar nær Héraði. Búast megi við innrennsli vatns á allmörgum stöðum þar sem farið sé um brotalínur. Ekkert bendi þó sérstaklega til þess að vatnsrennsli verði mjög frábrugðið öðrum göngum á Austurlandi. Jarðfræðiaðstæður eru því ekki taldar þannig að framkvæmdin sé ómöguleg eða ekki samanburðarhæf við önnur göng hérlendis síðustu ár.

Það tefur hins vegar verkið að aðeins er hægt að grafa göngin úr tveimur áttum. Lengd ganganna hægir líka á þar sem útakstur með efni og allir aðdrættir eru mjög langir. Sjálfur gangagröfturinn er talinn taka minnst fjögur ár og frágangur þrjú ár, alls sjö ár. Þá þarf tvö ár í hönnun og undirbúning áður frá því að ákvörðun er tekin um að gera göngin þar til hægt er að bjóða þau út.

Göng til Mjóafjarðar og áfram til Norðfjarðar

Í skýrslunni er gert ráð fyrir að munni ganga milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar gæti verið innan við Innri Hádegisá í Seyðisfirði í um 55 metra hæð, eða suð austan við Gufufoss í um 140 m hæð. Í Mjóafirði er reiknað með munna nálægt fjarðarbotni í 10 m hæð yfir sjó. Gangalengd yrði um 5,5 km og verktími þrjú ár.

Í göngum milli Mjóafjarðar og Norðfjarðar er miðað við munna í 15-20 metra hæð í sunnanverðum Mjóafirði og 150-220 metra hæð innarlega í Fannardal í Norðfirði. Gangalengd yrði 6-6,8 km, eftir hvar munnarnir yrðu. Í úttektinni er miðað við lengri kostinn. Vegir utan þessara ganga yrðu 3-3,5 km og þau tæki fjögur ár að klára.

Þau myndu fela í sér umtalsverðar styttingar á leiðum. Þannig færi leiðin milli Egilsstaða og Neskaupstaðar úr 68 í 45 km og milli Seyðisfjarðar og Reyðarfjarðar úr 58 í 43 km. Þar með yrði til leið framhjá Fagradal og umræddir vegir því allir á láglendi.

Ekki hafa verið gerðar sérstakar jarðfræðirannsóknir fyrir þessi göng og er áætlað að þær tækju tvö ár. Einhver gögn eru þó til og segir að þótt aðstæður milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar til gangagerðar séu almennt taldar þokkalegar séu þekktir berggangar, misgengi og brotalínur ekki langt frá stefnu ganganna, sem sé fremur óhagstætt.

Milli Mjóafjarðar og Norðfjarðar er vitað um setbergslög en leiðin virðist að öðru leyti í þokkalegu bergi. Með að hafa munna ganga nærri eyðibýlinu Fannardal megi hugsanlega fækka setbergslögunum en þá verði göngin 6,8 km.

Í skýrslu veðurfræðings, sem starfshópurinn kallaði eftir, er lagt til að gert verði hættumat fyrir snjóflóð nærri munnanum Seyðisfjarðarmegin. Þá er bent á að snjóþungt þyki á Fannardal. Veðurfarslegar aðstæður fyrir Fjarðarheiðargöng eru sagðar vel þekktar.

Kostnaður við syðri göngin tvö er talinn um 30,8 milljarðar króna og við hringtenginguna í heild 64,3 milljarðar.

Samfélagsgreining KPMG

Sem fyrr segir fékk starfshópurinn KPMG til að greina fyrir sig samfélagslegan ábata mismunandi gangakosta. Niðurstaða þeirrar greiningar er að hringtengingin sé sú samgöngubót sem kæmi Austurlandi í heild best.

Með henni hefðu íbúar á Mið-Austurlandi val um tvær leiðir milli helstu þéttbýlisstaða með hverfandi líkum á að ófærð setti strik í ferðir þeirra. Slíkt myndi styðja við heilsársferðaþjónustu. Svæðið myndi styrkjast sem eitt atvinnusvæði auk þess að styðja við frekara samstarf íbúa á ýmsum sviðum, auk þess að auka líkur á sameiningu allra sveitarfélaga á Austurlandi.

Í grófum dráttum má lesa það út úr greiningu KPMG að Fjarðarheiðargöng hefðu mikil áhrif fyrir Seyðisfjörð en ekki meiri áhrif en aðrir gangakostir fyrir Austurland í heild. Þau hafa þó ýmislegt með sér, svo sem möguleikann á að leggja hitaveitu frá Egilsstöðum til Seyðisfjarðar. Þá er vilji Seyðfirðinga skýr um hvert eigi að bæta samgöngur enda sæki þeir verslun og þjónustu í Egilsstaði, auk þess þaðan séu tengingar við flugvöllinn og áfram til Akureyrar.

Greinendur KPMG ræddu við lykilstjórnendur fyrirtækja og sveitarstjórnarfólk á Fljótsdalshéraði, Seyðisfirði og í Fjarðabyggð. Mat KPMG er að vilji Austfirðinga sé skýr, að byrjað verði á göngum undir Fjarðarheiði. Það megi einnig merkja á ályktunum Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi.

Mikilvægt að byrja sem fyrst þannig að ábatinn skili sér ekki of seint

Jarðgangakostir með göngum undir Mjóafjarðarheiði þóttu ekki eins fýsilegir. Þeir voru bæði dýrari og lengdu leiðina milli Seyðisfjarðar og Héraðs um 9 km miðað við núverandi veg yfir Fjarðarheiði, auk þess sem þeir voru taldir síðri með tilliti til veðurfars og vetrarumferðar. Þá sé hæpið að um þá leið næðist samstaða nema farið yrði í alla áfangana samtímis.

Í lokaorðum sínum leggur starfshópurinn áherslu á að ákvörðun um samgöngubætur með hringtengingu liggi fyrir eins fljótt og auðið er og að ráðist verði í framkvæmdir sem fyrst til að jákvæð áhrif á þróun byggðar og atvinnulífs skili sér ekki of seint. Hann lýsir vonum sínum um að skýrslan nýtist stjórnvöldum sem undirbúningur að ákvarðanatöku um Seyðisfjarðargöng eins og lagt var upp með við skipun hans.

Í hópnum sátu Hreinn Haraldsson, sem var vegamálastjóri er hópurinn var skipaður, sem formaður, Adolf Guðmundsson lögfræðingur og íbúi á Seyðisfirði, Arnbjörg Sveinsdóttir forseti bæjarstjórnar Seyðisfjarðar er hópurinn var skipaður, Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurrbúar og Snorri Björn Sigurðsson frá Byggðastofnun. Að auki unnu með hópnum tveir fulltrúar úr ráðuneytinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.