Fyrr en síðar þarf að smíða nýja Norrænu

Framkvæmdastjóri Smyril-Line, sem rekur farþegaferjuna Norrænu sem siglir vikulega til Seyðisfjarðar, segir stjórnendur fyrirtækisins alltaf hafa hugann við að endurnýja ferjuna þótt ekki sé komið að því strax. Auknir fragtflutningar hafa styrkt fyrirtækið verulega síðustu ár.

„Við höfum alltaf endurnýjun tækjakostar okkar í huga en það er ekki komið að því. Norræna er bara 16 ára gömul og það er ekki hár aldur á skipi,“ segir framkvæmdastjórinn, Rúni Vang Poulsen, í nýlegu viðtali við færeyska dagblaðið Dimmalætting.

Smyril-Line fékk núverandi Norrænu afhenta árið 2003. Síðan hefur fjöldi ferðamanna bæði á Íslandi og í Færeyjum margfaldast. Auk þess hafa ferðavenjur breyst og fragtflutningar margfaldast.

Þeir nema nú um 60% tekna Smyril-Line og nýverið bætti fyrirtækið við sig fjórða fragtflutningaskipinu. Rúni segir að fyrirtækið hafi þó ekki í hyggju að hætta farþegasiglingum. „Það er gott að hafa tvo til reiðar.“

Bættur hagur

Smíði Norrænu kostaði hátt í 15 milljarða íslenskra króna á sínum tíma en Rúni telur að ný ferja yrði helmingi dýrari. Núverandi ferja hefur verið reglulega endurnýjuð og nefnir Rúni til samanburðar að þær ferjur sem sigli um Oslóarfjörð séu orðnar 30 ára. Að lokum komi þó að því að smíða nýtt skip, þegar fjárhagsstaða fyrirtækisins verði nógu traust til að ráða við það.

Smyril-Line lenti í miklum fjárhagserfiðleikum árið 2008 og var bjargað fyrir horn 2011 eftir að einkafjárfestar lögðu félaginu til hlutafé. Hagur félagsins hefur vænkast síðan og í lok árs 2018 átti það sem samsvarar rúm fimm milljörðum íslenskra króna í eigið fé.

Sambærilegar áskoranir í ferðaþjónustu

Uppgangur íslensku ferðaþjónustunnar undanfarinn áratug á sinn þátt í bættum hag Smyril-Line. Rúni, sem verið hefur framkvæmdastjóri í 15 ár, segist sjá tækifæri til vaxtar í færeyskri ferðaþjónustu. Smyril-Line hefur þegar opnað þar eitt hótel og áformar að opna það næsta í byrjun maí.

Í viðtalinu ræðir Rúni ýmsar áskoranir færeyskrar ferðaþjónustu, sem minna um margt á þær sem sú íslenska hefur tekist við síðustu ár. Þannig er hann spurður hvort Færeyjar séu ekki dýrar og hann svarar því að þær séu það í samanburði við sólarlandaferðir, en ekki við sambærilega áfangastaði svo sem Ísland, Norður-Noreg, Finnland og Grænland.

Hann hafnar því einnig að ferðamenn skilji ekkert eftir sig í Færeyjum, enn meira megi fá þori Færeyingar að biðja um það. „Ég skil ekki hvers vegna svo mikið af þjónustu hér er ókeypis, eða nánast ókeypis,“ segir hann og bætir við að aukin gjöld eigi að leggjast á alla, líka Færeyinga.

Meðvitaðir um kröfur um minni útblástur

Þá er Rúni spurður út í áhrif aukinnar vitundar um áhrif ferðalag á losun kolefnis og þar með loftslagsbreytingar. Hann bendir á að kolefnisspor skipa sé minna en flugvéla og Smyril-Line tilheyri alþjóðlegum samtökum þar sem áhersla sé lögð á að framfylgja ströngustu alþjóðlegu kröfum. Við smíði nýs skips verði meðal annars horft til losunar kolefnis. Þá segir hann að skoðaðir hafi verið aðrir orkugjafar fyrir skipið en olía, til dæmis fljótandi náttúrugas (LNG) en fyrir það vanti geymslur í Færeyjum.

Við þetta má svo bæta að verið er að skoða raftengingu fyrir Seyðisfjarðarhöfn þannig að Norræna þurfti ekki að brenna olíu meðan hún liggur þar við bryggju.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.