Fyrirtæki Rögnu fullvinnur æðardún

Ragna S Óskarsdóttir keypti íbúð á Borgarfirði eystra fyrir tveimur árum síðan og ætlaði að nýta hana sem sumarhús. Hún hefur nú stofnað þar fyrirtæki og hafið framleiðslu á sængum úr íslenskum æðardúni. 


Ragna segir í viðtali í síðasta blaði Austurgluggans að eftir heimsókn í Loðmundarfjörð hafi hún átt erfitt með að hætta að hugsa um æðardúninn sem þar er safnað. „Mér fannst alveg ómögulegt að allt erfiðið við vinnslu dúnsins færi fram hérna á Íslandi, en fullvinnslan og þar af leiðandi virðisaukinn að mestu erlendis.

Ég fór því að velta þessu fyrir mér fram og til baka. Ég var kannski mjög upptekin af þessu í nokkrar vikur og henti þessu svo frá mér og sagði við sjálfa mig: Ragna nú ertu endanlega að tapa þér! En stuttu seinna var ég aftur farin að hugsa um æðardún.“

Á endanum kýldi Ragna á hugmyndina og tók þátt í svokölluðum viðskiptahraðli til að ýta fyrirtækinu úr vör síðasta vor. „Nú er búið að stofna fyrirtækið Íslenskan dún ehf., við erum komin með húsnæði á Borgarfirði, við erum komin með heimasíðu og tilbúna framleiðsluvöru þannig að starfsemin er hafin. Til að byrja með leggjum við áherslu á að framleiða og selja æðardúnsængur.“

Ragna segir að íslenskur æðardúnn sé einstakur í heiminum. „Æðardúnninn er engu líkur. Hann hefur hátt einangrunargildi og er nánast þyngdarlaus auk þess sem vinnsla hans er algjörlega sjálfbær. Það er í raun fátt íslenskara en æðardúnninn. Við erum alveg sér á parti við umönnun æðarfuglsins og vinnslu dúnsins, ferlið hefur fylgt okkur meira og minna frá landnámi. Eins langt og sögur fara af hafa íslenskir bændur hlúð að æðarfugli á varptíma. Við erum eina þjóðin sem hugsar svona vel um æðarfuglinn. Enda framleiða Íslendingar 75% af öllum æðardúni í heiminum.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.