Orkumálinn 2024

Fyrirsjáanlegt að tekjur sveitarfélaga rýrna

Covid-19 faraldurinn heggur skarð í fjármál margra sveitarfélaga á sama tíma og þrýst á þau að ráðast í útgjöld til að spyrna við neikvæðum áhrifum á efnahag landsins. Faraldurinn hefur einkum áhrif á sveitarfélög eins og Seyðisfjörð þar sem mikil uppbygging hefur verið í þjónustu við ferðamenn. Bæjarstjórinn segir erfitt að ráða í óvissuna.

Bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar samþykkti á fundi sínum í vikunni að taka 140 milljóna lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Í bókun kemur fram að lánið sé tekið til að fjármagna framkvæmdir hjá hafnarsjóði upp á 40 milljónir, eignasjóði upp á 20 milljónir og aðalsjóði upp á 80 milljónir. Í bókun kemur fram að hluti lánsins sé tekinn vegna viðspyrnu við áhrifum Covid-19 faraldursins, gert er ráð fyrir að fjölga sumarstörfum og mæta tekjuskerðingu.

Á sama fundi var samþykktur viðauki við fjárhagsáætlun vegna fyrirsjáanlegs samdráttar í tekjum bæjarsjóðs upp á 40 milljónir. Áætlað er að útsvar rýrni um 20 milljónir og tekjur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga um sömu upphæð.

Þar áður hafði bæjarstjórn samþykkt áskorun til stjórnvalda að koma sveitarfélögum til stuðnings. Efnahagsleg áhrif faraldursins bitna sérstaklega á svæðum sem treyst hafa á ferðaþjónustu og Seyðisfjörður er þar á meðal.

Skemmtiferðaskip afboða sig

Seyðisfjörður hefur undanfarin ár verið helsti viðkomustaður skemmtiferðaskipa á Austurlandi. Aðalheiður Borgþórsdóttir, bæjarstjóri, segir að útlitið þar í sumar sé svart. Þau skip sem koma áttu í maí og júní hafi afbókað sig og óljóst sé hvað þau sem síðar áttu að koma geri. „Þau voru ekki mörg í maí en við vitum ekki hvar þetta endar. Svörtustu spár segja að sumarið sé farið,“ segir hún.

Ferðaþjónustan hefur áhrif á mörgum stöðum. Þannig hafa skemmtiferðaskipin greitt um 140 milljónir árlega í hafnarsjóð fyrir að fá að nota aðstöðuna á Seyðisfirði. Þá er fyrirsjáanlegt að útsvarstekjur dragist verulega saman lækki atvinnustig í sveitarfélaginu. Til viðbótar hefur Jöfnunarsjóður varað sveitarfélög við að lægri framlaga sé að vænta á árinu en áætlað vera.

Seyðisfjörður fékk í fyrra um 180 milljónir úr sjóðnum, skatttekjur, þar með talið útsvar, voru um 500 milljónir og aðrar tekjur um 450 milljónir.

Mikilvægt að halda uppi atvinnustiginu

Á sama tíma og fyrirséð er að tekjurnar minnki hefur verið skorað á sveitarfélög að halda uppi atvinnu, til dæmis með fjölgun sumarstarfa eða flýtingu framkvæmda. Til að liðka fyrir því hefur ríkið tilkynnt að virðisaukaskattur af framkvæmdum sveitarfélaga verði endurgreiddur. Þá hefur verði tilkynnt að fjármagn fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs verði nýtt til að milda höggið af samdrætti almennra framlaga. Enn er þó enn óljóst hversu háar tölur verði um að ræða, hvernig sem á þær er litið.

Rætt hefur verið um að sveitarfélög felli niður fasteignagjöld til að hjálpa fyrirtækjum og heimilum í vanda. Flest, þar með talið Seyðisfjörður, hafa frekar seinkað gjalddögum. „Þetta er mikilvægur tekjupóstur. Við viljum frekar sjá hvað fyrirtækin geta greitt okkur.“

Stefna ríkisins hefur verið að reyna að halda uppi atvinnustigi með að halda fyrirtækjum gangandi. Aðalheiður segir þær aðgerðir einnig nýtast sveitarfélögum. „Með að halda uppi atvinnustigi haldast tekjurnar. Það er gott og brýnt. Oft er besta hjálpin að hafa vinnu og laun.“

Sameining flækir ekki málin

Fleiri austfirsk sveitarfélög hafa tekið lán hjá Lánasjóðnum. Þannig hefur bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkt að taka allt að 260 milljóna lán fyrir framkvæmdum sem hafa efnahagslega þýðingu. Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti 200 milljóna lán undir sömu formerkjum, en þar er sérstaklega talað um byggingu leikskóla og hafnar- og veituframkvæmdir.

Fljótsdalshérað og Seyðisfjarðarkaupstaður eru í hópi fjögurra sveitarfélaga sem síðasta haust samþykktu að sameinast. Gildistaka hennar frestast hins vegar þar sem ekki var hægt að kjósa nýja bæjarstjórn í vor vegna faraldursins.

Þegar búið er að samþykkja sameiningu þarf að bera meiriháttar fjárfestingar eins sveitarfélög undir hin sem sameinast á. Aðalheiður segir það ákvæði ekki flækja stöðuna nú.

„Ég held ekki. Við erum dálítið sameinuð. Við erum öll saman í þessu ástandi og hjálpumst við að komast út úr því. Við höfum þegar tekið fyrir viðauka frá öðrum sveitarfélögum. Eftir sem áður eru það bæjarfulltrúar sem taka afstöðuna þótt síðar þurfi að bera hana undir aðra.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.