Fylgjast vel með ferðum Norrænu

Sóttvarnalæknir segir yfirvöld fylgjast vel með ferðum Norrænu sem væntanleg er með farþega til Seyðisfjarðar eftir viku. Unnið er að reglum um komu erlendra ferðamanna í landið.

Þetta var meðal þess sem fram kom á upplýsingafundi almannavarna í dag. Þar var Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, spurður út í viðbrögð við frétt Austurfréttar frá í morgun um að Norræna hefði á ný hafið farþegaflutninga.

„Við fylgjumst vel með Norrænu. Það er ekki ljóst hversu margir eru um borð. Sumir þeirra eru að fara að vinna hér og fara í ákveðna sóttkví. Þetta er mjög brýnt mál,“ sagði hann.

Í upphafi fundarins hafði hann rætt reglur sem gilda um komur fólks erlendis frá, þeir sem búa hérlendis eða koma til langdvalar þurfa í sóttkví en engar slíkar reglur hafa verið um erlenda ferðamenn. Þær hafa hins vegar verið boðaðar.

„Ég tel mikilvægt að við könnum allar leiðir til að einhverjar hömlur gildi um ferðamennina til að við fáum ekki smit hingað. Það er umræða um þetta á alþjóðavettvangi og ég tel mikilvægt að alþjóðasamfélagið taki sig saman um hvernig ferðamennskan geti verið.“

Aðspurður sagði hann að meðal annars væri verið að skoða að ferðamenn þurfi í sóttkví. „Það er verið að kanna allar mögulegar hliðar. Þetta er er meðal annars inn í þeim hugleiðingum. Ég bendi á að mörg lönd beita þessum aðferðum, Danmörk og Noregur og í Frakklandi er útgöngubann. Það eru mismunandi kvaðir eftir löndum.“

Síðdegis í dag staðfesti dómsmálaráðherra að landamæri landsins yrðu áfram lokuð íbúum utan Evrópusambandsins og Bretlands. Öllum með búsetu á landinu er skipað að fara í sóttkví eftir komuna til landsins.

Linda B. Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril-Line á Íslandi, hefur sagt að von sé á rúmlega 20 farþegum. Hún hefur einnig ítrekað að náið hafi verið unnið með almannavörnum á Austurlandi, en fulltrúi frá skrifstofunni á Seyðisfirði hefur setið vikulega fundi almannavarnanefndar svæðisins.

Fram kom á fundinum að tólf ný smit hefðu greinst í gær á landinu, ekkert þeirra á Austurlandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.