Fundað með húseigendum um mat Ofanflóðasjóðs í næstu viku

Áformað er að funda með eigendum húsa við Stöðvarlæk á Seyðisfirði eftir helgi. Búseta í húsunum er nú óheimil vegna skriðuhættu. Íbúar hafa lýst óánægju með lágt verðmat á húsunum sem í einhverjum tilfellum er undir fasteignamati.

„Ég geri ráð fyrir að funda með húseigendum og fara yfir málin með hverjum þeirra fyrir sig,“ segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings.

Um er að ræða fjögur hús með alls sjö íbúðum. Eftir að hættumat lá fyrir í þá átt að ekki teldist óhætt að búa í húsunum fór matsnefnd á vegum Ofanflóðasjóðs af stað til að verðmeta húsin. Niðurstöður hennar voru kynntar húseigendum skömmu fyrir páska.

Mat hennar byggist meðal annars á markaðsverði sem í einhverjum tilfellum hefur leitt til þess að matsverðið er undir fasteignaverði. Einhverjir íbúðaeigendur hafa lýst vonbrigðum sínum vegna þessara niðurstaðna og lýst því að þeir geti ekki hugsað sér að selja hús sín á þessu verði.

Munu koma athugasemdum á framfæri

Ofanflóðasjóður veitir fjármagn til uppkaupa húsa á hættusvæðum sem oftast grundvallast á þessu mati en það eru sveitarfélögin sem kaupa og eignast húsin. Á fundi byggðaráðs Múlaþings í síðustu viku var samþykkt að óska eftir stuðningi sjóðsins vegna fyrirhugaðra kaupa á húsunum.

Sveitarstjóra var falið að ræða við húseigendur sem hann mun gera í næstu viku. Björn segir þá fundi vera fyrsta skrefið í að ná lendingu í málinu.

„Við vitum að sumir húseigendur eru sáttir, aðrir ekki. Við höfum beðið þá sem hafa haft samband með athugasemdir að taka þær saman þannig við getum komið þeim formlega á framfæri við Ofanflóðasjóð. Við munum gera það eftir þessa fundi og kalla eftir viðbrögðum sjóðsins.“

Fátt ákveðið um framtíðina

Björn telur líklegt að sjóðurinn haldi sig við matið. Hann kveðst ekki geta tjáð sig um hvað gerist eftir það, hvort boð til húseigenda verði hækkað á vegum sveitarfélagsins eða hvort þeir þurfi að selja á undirverði ella eiga það á hættu að sitja uppi með húsin og fá ekkert fyrir þau.

„Málin eru ekki komin á það stig að ég geti tjáð mig frekar um það. Við vonumst bara til þess að ásættanleg lending náist.“

Þá hefur ekkert verið um hvað gert verði við húsin sem sveitarfélagið eignast, hvort þau verði rifin, fái að standa eða verði flutt. Sú vinna er í höndum sérstaks starfshóps sem skipaður var um framtíð húsanna sem enn standa á hættusvæðum.

Tilboð Ofanflóðasjóðs á aðeins við um íbúðarhús. Fimmta húsið sem stendur við Stöðvarlæk er gamla Símstöðvarhúsið sem er í eigu sveitarfélagsins og hýsti áður bæjarskrifstofur Seyðisfjarðar. Björn segir enga ákvörðun um það enn en málefni þess séu á borði starfshópsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.