Fuglarnir harðir af sér meðan þeir komast í fæðu

Kuldahret um helgina á ekki að hafa haft mikil áhrif á fuglalíf á Austurlandi, nema þá í allra efstu fjallatindum. Mikilvægast er að fuglarnir hafi aðgang að fæðu.

„Í efstu hæðum getur þetta hafa haft áhrif á litla unga en þar er ekki svo stór hluti fuglanna,“ segir Halldór Walter Stefánsson, fuglafræðingur Náttúrustofu Austurlands.

Víða á Austfjörðum gránaði niður undir miðjar hlíðar og efst á Jökuldal langleiðina niður í byggð. Slíkt veðurfar er blessunarlega sjaldgæft í byrjun júlí. Veðurspár eru orðnar heldur betri en enn gæti orðið mjög kalt á næturnar á hálendinu í vikunni.

„Ef þetta stendur bara yfir á næturnar þá á allt að sleppa. Þetta er ekki alvarlegt hret, snjóþekjan er ekki það þykk.“

Apríl var einstaklega góður eystra og fram í maí en seinni hluti maí og fyrri hluti júní fremur kaldir. „Það virðist ekki hafa haft nein áhrif. Þessir fuglar eru ótrúlega harðir af sér. Þeir eru þokkalega varðir gagnvart kuldanum. Þeir þola hann meðan ekki er jarðlaust.“

Helst gæti kuldinn haft áhrif á vaðfugla, mófugla og spörfugla. „Þetta snýst um aðgang að fæðu og þessir fuglar treysta á skordýralífið. Ef það er kalt lengi þá gæti fæðan snarminnkað. Minna skordýralíf gæti þýtt færri egg hjá mó- og spörfuglum, 2-3 í stað 4-5.“

Kuldinn í vor sé til dæmis ekki sambærilegum erfiðum vorum 1995 eða 2005. „Þá var hret í maí eftir hlýindi þar á undan. Þá fór illa, allt varp var komið á siglingu þegar kom hálfs metra þykk snjóþekja. Eftir það voru dauðir fuglar um allt.“

Grátt var í fjallatoppa á Norðfirði í gærmorgunn. Mynd: GG


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.