Frumkvöðlar læra að virkja íbúa í brothættum byggðum

Alþjóðlegu verkefni sem miðar að því að efla frumkvöðla í brothættum byggðum var hleypt af stokkunum á Borgarfirði eystra í vikunni. Þátttakandi segir áhugavert að læra hvernig nýta megi kraftinn í heimafólki.

Byggðastofnun leiðir þátttöku Íslands í verkefninu, sem hlotið hefur nafnið Interface, með Háskólanum á Bifröst. Samstarfsaðilar koma einnig frá Grikklandi, Búlgaríu og Írlandi. Í stuttu máli miðar verkefnið að því að leita uppi frumkvöðla í brothættum byggðum og efla þá.

Undanfarna mánuði hefur verið þróað námsefni og prufukennsla hófst á Borgarfirði í gær. Þátttakendur eru einkum verkefnastjórar úr verkefninu brothættar byggðir en einnig fulltrúar úr röðum heimamanna.

Frá Borgarfirði koma annars vegar Alda Marín Kristinsdóttir verkefnastjóri og Óttar Már Kárason, sem sæti á í verkefnastjórninni. Kennari fyrstu lotunnar var Sigurborg Kr. Hannesdóttur, sem um árabil bjó á Egilsstöðum.

„Í gær lærðum við hvernig á að virkja íbúa og ná til fólks, bæði á fundum og í öðrum verkefnum,“ segir Óttar Már í samtali við Austurfrétt.

Eitt af því nýja í námskeiðinu er að nýta aðferðafræði markþjálfunar þar sem þjálfari leitast við að láta nemann finna lausnirnar sjálfur frekar en segja honum fyrir verkum.

„Það verður forvitnilegt að heyra og sjá hvað maður fær út úr námskeiðinu sem getur nýst við að efla brothættar byggðir eins og Borgarfjörð. Ég var líka enn spenntari fyrir fyrsta deginum því hann var á Borgarfirði,“ segir Óttar Már.

Áætlað er að prufukennsla og lokafrágangur námsefnis taki um það bil ár. Að því loknu verður það öllum opið. Þá munu nemarnir hver fyrir sig standa fyrir verkefnum í sinni heimabyggð

Frá námskeiðinu í gær. Mynd: Kristján Þór Halldórsson/Byggðastofnun


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.