Franskar keppnisskútur flykkjast inn til Fáskrúðsfjarðar

Skútur í frönsku siglingakeppninni Vendée Arctique flykkjast nú inn á Fáskrúðsfjörð ein af annarri. Þar munu skúturnar láta fyrirberast að minnsta kosti til morguns vegna veðurs.

Alls létu 24 skútur úr höfn frá hafnarborginni Les Sable d'Olonne í héraðinu Vernée á vesturströnd Frakklands á sunnudag og tóku stefnuna til Íslands meðfram vesturströnd Írlands. Til stóð að sigla alls 3500 sjómílur norður fyrir Ísland þannig keppnin yrði sú fyrsta sem sigldi norður fyrir heimskautsbaug.

En með hliðsjónar af versnandi veðurspá var sú ákvörðun tekin í gærmorgunn að gera hlé á keppninni og skúturnar myndu láta fyrirberast á Fáskrúðsfirði meðan sá stormur, sem spáð við Íslandi í kvöld og á morgun, gengur yfir.

Samkvæmt yfirlýsingum stjórnenda keppninnar á heimasíðu hennar þótti ekki verjandi að leggja út í að sigla í gegnum storminn þegar spáð er 35-40 hnúta meðalvindi og hviðum yfir 50 hnútum. „Fimmtíu hnúta vindur eru ekki aðstæður sem þú vilt vera í,“ er haft eftir einum keppandanum.

Þessi breyting hefur líka það í för með sér að hætt hefur verið við siglinguna norður fyrir landið. Þegar vindinn lægir munu skúturnar sigla aftur til suðurs þannig keppnin styttist um 200 sjómílur.

Keppendur halda því forskoti sem þeir fóru af stað með og hefur dvölin á Fáskrúðsfirði því ekki áhrif á úrslitin. Keppnin er stöðvuð þegar keppendur koma yfir endalínu sem er úti fyrir Papey. Fyrsta skútan sigldi þar yfir um hálf eitt í nótt og kom til Fáskrúðsfjarðar undir hádegið. Hún hafði í gær náð 75 sjómílna forskoti. Hinar skúturnar eru enn suður af landinu en ein snéri við. 

Skútunum verður komið fyrir í kringum laxeldiskvíarnar við Eyri í sunnanverðum Fáskrúðsfirði. Fulltrúar frá Siglingaklúbbi Austurlands hafa aðstoðað keppendur við að koma sér fyrir. Gert verður hlé á keppninni í einn og hálfan sólarhring.

Vernée Arctique er hluti af Verné Global keppninni. Aðalkeppnin sjálf á að fara fram árið 2024 en til að komast í hana þurfa keppendur að ljúka tveimur af fimm forkeppnum en keppnin nú er ein þeirra. 
 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.