Framtíð Heydala ræðst eftir ráðningu nýs prests

Þjóðkirkjan hefur auglýst eftir nýjum presti í Austfjarðaprestakall. Þegar ráðið hefur verið í starfið stendur til að taka ákvörðun um framtíðarnýtingu prestsetursins að Heydölum.

Þetta segir Pétur Georg Markan, biskupsritari, í svari við fyrirspurn Austurfréttar. Umsóknarfrestur um stöðuna rennur út fimmtudaginn 5. janúar.

Ekki hefur verið föst búsetia í prestssetrinu að Heydölum í Breiðdal síðan sr. Dagur Fannar Magnússon fluttist þaðan suður í Skálholt í vor en það hefur stundum verið leigt út til skemmri tíma.

Pétur segir að Heydalir séu meðal þeirra staða þar sem nýjum presti bjóðist að búa á. Eftir að ráðið hefur verið í stöðuna skýrist hvar presturinn velur að búa.

Pétur segir að hvert sem valið verði þá hafi hann trú á að Heydalir gegni áfram mikilvægu hlutverki í menningar- og athafnalífi Breiðdælinga, sem og landsins alls. Þannig vilji Þjóðkirkjan alltaf vera, þátttakandi í lífi og starfi landsmanna.

Austfjarðaprestakall varð til haustið 2019 með sameiningu allra prestakallanna í Fjarðabyggð og gamla Djúpavogshreppi í eitt. Þá voru skipaðir fimm prestar. Hreyfing hefur verið á þeim á þessu ári. Í byrjun árs fluttist sr. Erla Björg Jónsdóttir tímabundið norður á Dalvík og sem fyrr segir fór Dagur Fannar í Skálholt í vor. Bryndís Böðvarsdóttir var skipuð síðsumars en nú hefur Alfreð Örn Finnsson, sem þjónað hefur frá Djúpavogi, verið ráðinn tímabundið sem prestur í Digranesprestkalli í Djúpavogi. Hann flyst þangað eftir áramótin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.