Framtíð landsbyggðarinnar byggir á fjölbreyttum atvinnumöguleikum

„Ég er mjög ánægður með þetta, en ég er þeirrar skoðunar að framtíð landsbyggðarinnar sé undir því komin að atvinnulífið sé fjölbreytt og þetta styður svo sannarlega við það,” segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri á Djúpavogi, en Minjastofnun Íslands hlaut á dögunum 21 milljón króna styrk vegna fjarvinnslustöðvar á Djúpavogi.



Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur staðfest tillögur valnefndar um verkefnastyrki sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024. Að þessu sinni var 30 milljónum króna úthlutað vegna fjarvinnslustöðva. 

Markmiðið með framlögum vegna fjarvinnslustöðva er annars vegar að koma opinberum gögnum á stafrænt form og hins vegar að fjölga atvinnutækifærum á landsbyggðinni. Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknir og gerði tillögur til ráðherra. Byggðastofnun annast umsýslu verkefnastyrkjanna.

Alls bárust sextán umsóknir um styrkina að þessu sinni. Fjögur verkefni voru valin og verða samningar vegna þeirra undirritaðir á næstu dögum.
Hæsti styrkurinn verður veittur til verkefnisins Fjarvinnsla á Djúpavogi. Styrkurinn er veittur til Minjastofnunar Íslands en Djúpavogshreppur og Austurbrú eru samstarfsaðilar. Heildarupphæð styrksins er 21 milljón króna, eða níu milljónir fyrir árið 2018 og tólf milljónir fyrir árið 2019.

Störf sem hægt er að vinna hvaðan sem er
„Minjavörður Austurlands er nú þegar starfandi hér á Djúpavogi, með bækistöðar hér í Geysi. Með þessu verkefni eflist starfsstöð Minjavarðar Austurlands á staðnum en gert er ráð fyrir að einn eða tveir starfsmenn sinni verkefninu í ár sem snýr að gagnavinnslu fyrir Minjastofnun, svo sem uppsetningu á gagnagrunni og innslætti á upplýsingum um friðuð og friðlýst minningamörk í kirkjugörðum um land allt. Einnig innslætti á eldri skýrslum um fornleifaskráningar og öðrum gögnum sem eingöngu eru til á pappír. 

Um er að ræða gögn sem legið hafa hjá Minjastofnun til margra ára og beðið þess að komast á rafrænt form, en hvar sú vinna á sér stað skiptir engu máli. Hér á Djúpavogi er fólk sem bæði hefur tölvuþekkingu til þess að setja gagnagrunninn upp og einnig til þess að slá inn öllum upplýisingunum. 

Mín hugsun var alltaf sú að þetta myndi renna styrkari stoðum undir starfsemi Minjastofnunar á staðnum. Mörg störf eru að verða án raunverulegrar starfsstöðvar og þessi eru lýsandi dæmi, störf sem hægt er að vinna hvaðan sem er.”

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.