Framlag til Austurlands lítilsvirðandi og ámælisvert

Stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) lýsir yfir mikilli óánægju með fjárveitingar til framkvæmda í landshlutanum í umsögn sinni um samgönguáætlun 2019-2033. Stjórnin vonar að hlutur fjórðungsins verði réttur og tekið tillit til forgangsröðunar sem ítrekað hefur verið samþykkt á vettvangi sambandsins.

Stærstu athugasemdir Austfirðinga við áætlunina hafa snúið að næstu fjórum árum þar sem gert er ráð fyrir einum milljarði króna í nýframkvæmdir á svæðinu milli Vopnafjarðar og Djúpavogs. Uppistaðan í því er endurgerð vegarins til Borgarfjarðar, sem fagnað er í umsögn SSA, auk 300 milljóna til að ljúka vegagerð í Berufirði.

Aðrar nýframkvæmdir eru ekki fyrirhugaðar á svæðinu á þessum tíma og segir í umsögninni að það sé „lítilsvirðandi og ámælisvert“ að ekki sé gert ráð fyrir einni krónu til þeirra á árunum 2020 og 2021.

Einstaklega óhagstæð áætlun

Í umsögninni segir að samgönguáætlun sé Austurlandi með eindæmum óhagstæð og fjárveitingar alltof litlar sem tefji nauðsynlegar samgöngubætur á svæðinu. Það sé sérstaklega ámælisvert því nýframkvæmdir og viðhald vega á svæðinu hafi verið í algjöru lágmarki mörg undanfarin ár.

Sérstaklega er minnst á Fjarðarheiðargöng og heilsársveg yfir Öxi en þau verkefni hafi ítrekað verð sett framarlega á forgangslista á vettvangi SSA.

Forgangsröðun SSA hunsuð

Aðalfundir SSA hafa ítrekað samþykkt ályktanir um samgöngumál þar sem verkefnum til samgöngubóta hefur verið forgangsraðað. Að mati stjórnar SSA eru það mikil vonbrigði að ekki er tekið tillit til þeirrar forgangsröðunar. Mikilvægt er að Fjarðarheiðargöng, heilsársvegur yfir Öxi auk fjölda brýnna samgöngubóta í fjórðungnum komi sem fyrst til framkvæmda. Malarvegir, einbreiðar brýr og hættulegir vegkaflar víða á Austurlandi eru sagðir óboðlegir.

Þá er kallað eftir auknu fjármagni í viðhald flugvallarins á Egilsstöðum til að hann standist kröfur sem varavöllur fyrir millilandaflug.

Óskað er eftir að hlutur Austurlands verði leiðréttur í meðferð Alþingis á áætluninni og beðið um fund umhverfis- og samgöngunefnd þingsins til að fara yfir málin. Sá fundur er í dag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.