Framkvæmdir við snjóflóðavarnagarðana á Seyðisfirði gengið vel í vetur

Framkvæmdir við snjóflóðavarnagarðanna í norðanverðum Seyðisfirði hafa gengið vel í vetur þannig verkið er heldur á undanáætlun. Breytingar á því verða þó væntanlega til þess að endanleg verklok frestast. Ákveðið hefur verið að bæta við varnarkeilum yst við garðana.

„Okkur gengur vel og erum komnir lengra en við ætluðum. Veturinn hefur verið góður. Við gátum unnið fram að áramótum, allan febrúar og byrjað strax eftir páska.

Núna er suðvestanþurrkur sem hjálpar. En það þarf ekki nema einn slæman rigningarmánuð í svona verki til að við lendum á eftir áætlun,“ segir Benedikt Ólason, verkstjóri Héraðsverks sem gerir garðana.

Garðarnir eru þrír, Bakkagarður, Fjarðagarður og Öldugarður. Vinna stendur yfir við þá alla. „Við erum að setja upp grindur í Bakkagarði og keyra grjóti og bakfyllingu í Fjarðagarð. Við getum bara unnið í um 1/3-1/2 hans því á því svæði er enn verið að rannsaka fornleifar. Við munum klára hann á næsta ári þegar þær verða búnar.

Við settum farg á þar sem Öldugarðurinn kemur í júní. Við tökum það af í júní og mölum til að búa til efni. Við erum því búnir að opna inn á alla garðana þrjá.“

Samkvæmt útboði átti verkinu að vera lokið í desember 2025 en Benedikt segist ekki hafa trú á að það verði fyrr en árið 2027 vegna breytinga á görðunum og jarðfræði svæðisins. Klöpp í flóðráðs Bakkagarðs var lægri en reiknað var með og því hafa fallið til 200.000 rúmmetrar af efni sem þarf að keyra þaðan í burtu. „Það er erfitt að sjá svona fyrir. Svona breytingar verða í öllum varnargörðum.“

Þá er búið að ákveða að bæta við sjö jarðvegskeilum í tveimur röðum utan við Öldugarðinn, þar sem nýbúið er að opna húsbílastæði. Þeim er ætlað að draga úr hættu á hafnarsvæðinu þar fyrir neðan. Skipulagsvinna hefur staðið yfir síðustu viku en í gær staðfesti Skipulagsstofnun að breytingin teldist það lítil að ekki þyrfti að gera fyrir hana sérstakt umhverfismat. Slíkar keilur reyndust vel þegar snjóflóðin féllu í Neskaupstað í lok mars.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.