Framkvæmdir hafnar við Kröflulínu 3

Framkvæmdir eru hafnar í tengslum við reisingu Kröfulínu 3, nýrrar háspennilínu milli Kröfluvirkjunar og Fljótsdalsstöðvar.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti er byrjað á slóðagerð við Fljótsdalsstöð, að gera nýja brú yfir Jökulsá á Brú og koma fyrir vinnubúðum í Möðrudal. Þá er einnig hafin slóðagerð á svæðinu.

Tilboð í reisingu línunnar eru nýopnuð og verið er að fara yfir þau. Reiknað er með að fyrstu möstrin rísi um mánaðarmótin ágúst/september. Gangi allt að óskum verður línan spennusett í lok árs 2020.

Áætluð lengd línunnar er 122 km og liggur hún að mestu samsíða Kröflulínu 2. Hún liggur um þrjú sveitarfélög: Skútustaðahrepp, Fljótsdalshérað og Fljótsdalshrepp. Öll framkvæmdaleyfi liggja fyrir og er kærufrestur útrunninn.

Undirbúningur hefur staðið yfir í allnokkurn tíma en tillaga að matsáætlun á umhverfisáhrifum var kynnt í byrjun árs 2013. Markmið framkvæmdarinnar er að bæta raforkuflutningskerfið og auka stöðugleika og gæði orkuafhendingar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar