Framkvæmdir en ekki fótbolti á Garðarsvelli í maí?

Gert er ráð fyrir að hefja framkvæmdir við íbúðabyggð á knattspyrnuvellinum á Seyðisfirði í maí, gangi vinna við deiliskipulag eftir. Skipulagsmál í firðinum hafa verið í endurskoðun eftir skriðuföllin í desember.

Stefán Bogi Sveinsson, formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings, fór yfir stöðuna í skipulagsmálum á Seyðisfirði á íbúafundi sem sendur var út í gær. Hann sagði að við sameininguna síðasta haust hefði verið vitað að fjöldi skipulagsverkefna biði á Seyðisfirði en enn hefði bæst við þegar finna þurfti nýtt land undir íbúðahúsnæði eftir hamfarirnar.

Leitað að lóðum

Hann lýsti stöðunni þannig að ekki væri mikið deiliskipulag á Seyðisfirði, en það væri svo sem þannig víðar í sveitarfélaginu. Þó væri til deiliskipulag á Lónsleiru og við Lónið. Þar væri hins vegar ekki hægt að vinna hratt, bæði væði beðið eftir endanlegri hönnun snjóflóðavarna undir Bjólfi, hins vegar væru kvaðir um að nýbyggingar þar féllu inn í ásýnd gömlu byggðarinnar.

Stefán Bogi sagði að í fyrstu hefði verið horft til að breyta þremur einbýlishúsalóðum við Múlaveg og Hlíðaveg í tvær parhúsalóðir sem ríkisleigufélagið Bríet ætlaði að byggja. Fallið var frá því eftir ábendingar um að þar með væri minni einbýlishúsalóðum í bænum útrýmt.

Næst hefði verið skoðað hvort til væru lausar lóðir inni í byggðum hverfum. Nokkuð margar væru á skrá en þegar búið var að taka þær betur út stóðu fáar eftir. Svo fór að ein lóð við Túngötu var tekin frá í verkefni Bríetar.

30 íbúðir á vellinum

Þar með var farið á horfa á Garðarsvöll, knattspyrnu- og íþróttasvæði bæjarins. Það hefur ekki verið notað í nokkur ár þar sem völlurinn er talinn ónýtur og ekki fengist ásættanleg tilboð í endurgerð hans. Þar stendur til að koma fyrir 30 íbúðum við tvær nýjar götur. Stefán Bogi bætti því við að viðræður væru hafnar við íþróttafélagið Huginn um nýtt vallarstæði. Stefnt er að því að vinna skipulagið á vellinum hratt og gangi það að óskum hefjast framkvæmdir þar í maí.

Stefán Bogi sagði að töluvert af bæði byggingaverktökum og einstaklingum hefðu óskað eftir lóðum undir íbúðahús. Þegar hefur verið samið við Bríeti um að byggja sex íbúðir og félagið Bæjartún, sem myndað var til að byggja átta íbúða kjarna fyrir íbúa 55 ára og eldri, hefur sýnt á að byggja fleiri íbúðir. Þeim kjarna hefur nú verið fundinn staður á Garðarsvelli ásamt flestum þeim íbúðum sem áformað er að byggja á næstunni.

Hvernig á skriðan að líta út?

Fleiri skipulagsmál eru í vinnslu, til dæmis endanleg hönnun snjóflóðavarnagarðanna og efnisnáma í Stafdal auk þess sem vinnuhópur er að störfum um húsin sem standa utan Búðarár en sum þeirra verða mögulega flutt. Eins þarf að skoða atvinnusvæði. Kynningu á breytingu á notkun hússins að Vesturvegi 4 er nýlokið og er unnið úr athugasemdum.

Þá benti Stefán Bogi á að skoða þyrfti skipulag svæðisins þar sem stóra skriðan féll þann 18. Desember. „Það þarf að ákveða hvernig það verði haft til framtíðar. Þótt þar verði ekki byggt húsnæði þarf að skipuleggja útlitið á svæðinu,“ sagði hann.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.