Fóru fram á aðgang að öllum tillögum um fráveitu

Fulltrúar meirihlutans í umhverfis- og framkvæmdanefnd Fljótsdalshérað höfnuðu ósk minnihlutans um nefndin fengi í gegnum stjórn Hitaveitu Egilsstaða og Fella (HEF) aðgang að öllum gögnum á ólíkum valkostum um legu nýrrar fráveitu fyrir þéttbýlið á Egilsstöðum og í Fellabæ.

Lausnir í fráveitumálum hafa verið umdeildar undanfarna mánuði og voru eitt stærsta málið í nýafstaðinni kosningabaráttu. Í dag er hluti skólps í þéttbýlinu hreinsaður en stór hluti fer óhreinsaður út í Eyvindará og Lagarfljót.

Stjórn HEF lagði í byrjun árs fram tillögu um að byggja eina stóra hreinsistöð fyrir allt skólp af svæðinu. Hún yrði með eins þreps hreinsun en því hefur verið haldið fram að það standist ekki lög heldur verði hreinsunin að vera tveggja þrepa.

Á fyrsta fundi nýrrar umhverfis- og framkvæmdanefndar í vikunni var samþykkt með þremur atkvæðum fulltrúa meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks að senda fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um hvort fyrirhugaðar fráveituframkvæmdir séu háðar mati á umhverfisáhrifum.

Tveir fulltrúar minnihluta Héraðslista greiddu atkvæði á móti og lögðu fram bókun þar þeir gagnrýna að í greinargerðinni til Skipulagsstofnunar sé aðeins skilgreindur sá valkostur sem stjórn HEF hafi unnið eftir.

Þeir telja samanburð vanta við aðra kosti þannig hægt sé að staðfesta að framkvæmdin standist stefnu sveitarfélagsins í fráveitumálum. Í gildandi aðalskipulagi sé talað um fjögurra þrepa hreinsun fyrir þéttbýlið en í greinargerðinni um að byrjað verði á eins þreps hreinsum og öðru stigi bætt við síðar, án þess að skilgreint sé hvenær það verði.

Þá gagnrýna fulltrúarnir að ekki sé tekið á miklu rennsli af hreinu vatni í kerfinu, sem sé aðalvandamálið og valdi því að fyrirhuguð hreinsistöð valdi ekki því álagi sem á hana verður sett í rúma tvo mánuði á ári.

Fulltrúar Héraðslistans óskuðu því eftir að stjórn HEF veitti umhverfis- og framkvæmdanefnd aðgang að gögnum og greiningum fyrir alla valkosti sem skoðaðir hefðu verið. Þá yrði óskað eftir áliti Skipulagsstofnunar á hvort fyrrnefndur valkostur teljist breyting á stefnu í gildandi aðalskipulag. Þessari ósk var hins vegar hafnað með þremur atkvæðum meirihlutans.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.