Forstjóri SVN segir að staðan sé grafalvarleg

Gunnþór Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar (SVN) segir að það sé alveg grafalvarleg staða komin upp þar sem hluti af athafnasvæði félagsins á Seyðisfirði er innan hættusvæðis. "Það sér hver maður að það er ekki hægt að vera með atvinnustarfsemi á hættusvæði eins og hér um ræðir," segir Gunnþór.


Þetta kemur fram í blaðinu Austurglugginn sem kom út í dag. Þar segir m.a. að mikil umræða hefur blossað upp á Seyðisfirði að undanförnu um framtíð Síldarvinnslunnar. Framtíð hennar í bænum er óljós í augnablikinu. Málið var rætt ítarlega á síðasta fundi heimastjórnar Seyðisfjarðar og þar voru þrjár tillögur um viðbrögð af hálfu heimastjórnarinnar samþykktar.

Aðalheiður Borgþórsdóttir fulltrúi sveitarstjóra Múlaþings í heimastjórn Seyðisfjarðar segir að þau hafi átt samtal um þessi mál við Síldarvinnsluna og sveitarstjórn.

“Við munum halda áfram að finna lausn á þessu máli enda er Síldarvinnslan langstærsta fyrirtæki bæjarins og því mjög mikilvægt að hún starfi áfram í bænum," segir Aðalheiður.

Fram kemur í máli Aðalheiðar að málið sé nú í nokkurri biðstöðu þar sem ekki sé komið endanlegt hættumat fyrir svæðið og beðið er eftir því.

Sem stendur er í gildi bráðabirgðahættumat frá því í marslok. Komið hefur fram að endanlegt hættumat fyrir Seyðisfjörð sé væntanlegt um mitt sumar. Veðurstofan hafði ekki svarað fyrirspurn Austurgluggans um nánari tímasetningu áður en blaðið fór í prentun.

"Hvað ákvarðanir okkar varðar munu þær byggja á því að öryggi og líðan starfmanna sé í forgangi," segir Gunnþór. "Línan sem markar hættusvæðið liggur að hluta í gegnum frystihús okkar."

Ein tillagan á fyrrgreindum heimastjórnarfundi fjallaði um að hvetja sveitarstjórn Múlaþings til að hefja strax viðræður við stjórn Síldarvinnslunnar um framtíðarhugmyndir þeirra um starfsemi fyrirtækisins á Seyðisfirði. Og hvaða möguleikar eru í stöðunni.

Nánar er fjallað um málið í Austurglugganum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.