Forsetaheimsókn vendipunktur í Finnafjarðarverkefni

Aðkoma Ólafs Ragnar Grímssonar, fyrrverandi forseta Íslands, spilaði stóran þátt í því að þýska fyrirtækið Bremenports fór að sýna stórskipahöfn í Finnafirði áhuga. Ráðherra í fylkisstjórninni í Bremen segir verkefnið geta átt þátt í að koma Íslandi í forustusæti á norðurslóðum.

„Undirskriftin hér í dag þykir mér sambærileg því sem gerðist fyrir 200 árum þegar einn borgarstjóra Bremen ákvað að byggja nýja höfn nær sjónum, þar sem nú er Bremenhaven.

Það þarf sýn og góða hugmynd til að byggja upp höfn. Ég held að hvort tveggja eigi vel við í dag,“ sagði Martin Günther, ráðherra efnahags- vinnumarkaðs- og hafnarmála í fylkisstjórn Bremen þegar samstarfssamningar um uppbyggingu stórskipahafnar í Finnafirði voru undirritaðir á Þórshöfn á fimmtudag.

Samningarnir eru á milli sveitarfélaganna Langanesbyggðar og Vopnafjarðarhrepps, verkfræðistofunnar Eflu og Bremenports. Það er að fullu í eigu fylkisstjórnarinnar og heldur bæði utan um hafnirnar í Bremen og Bremerhaven.

Günther sagðist fyrst hafa komið að verkefninu sumarið 2013 í kjölfar opinberrar heimsóknar Ólafs Ragnars til Þýskalands. „Við ræddum um tækifæri til samvinnu, milli Bremenports með alla sína reynslu í að byggja hafnir og Íslands á norðurslóðum.

Mér fannst sérlega eftirtektarvert að sjá norðurslóðavinkilinn og hvernig Ísland með verkefnum sem þessu getur orðið leiðandi aðili á svæðinu. Ég held að dagurinn í dag sé góður fyrir samvinnu okkar.

Það er líka gott fyrir verkefnið í heild sinni að sveitarfélögin hafa haft forustuna. Ég hlakka ekki bara til undirritunarinnar heldur framþróun verkefnisins næstu árin. Tækifæri bæði svæðisins og hafnarinnar eru í mínum huga augljós.“

Fylkisstjórnin veitti Bremenports heimild til að stofna dótturfélög utan um Finnafjarðarverkefnið árið 2017. „Hafnarverkefnið á Íslandi felur í sér langtímasýn og þróun sem tekur örugglega áratugi. Það skapar vettvang fyrir sjálfbæra þróun á norðurslóðum og á sinn þátt í að gera nýjar siglingaleiðir öruggari. Að auki felur verkefnið í sér mikla framþróun fyrir veikt svæði. Það er heiður að Bremenports geti orðið við óskum Íslendinga um þátttöku í þessu verkefni," er ennfremur haft etir Martin í tilkynningu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar