Forréttindi að stunda búskap og framleiða matvörur á Íslandi

lomb.jpgEllen Thamdrup, bóndi á Gíslastöðum á Fljótsdalshéraði, segir það forréttindi að fá að framleiða matvörur á Íslandi. Samanburðinn hefur hún frá Danmörku þar sem ýmis efni eru notuð á gróður þaðan sem þau rata inn í fæðukeðjuna.

 

Þetta kemur fram í pistli sem Ellen ritaði í fréttabréf Búnaðarfélags Austurlands fyrir skemmstu. Þar lýsir hún hvernig ýmis efni hafi komið til sögunnar eftir því sem framleiðslan varð sérhæfðari.

„Þar  sem eiturefni og tilbúinn áburður hélt innreið sína fyrir alvöru í jarðræktina og pensilíinið (í forminu Tylan, sem markvisst, en hugsanalaust var bætt í fóður unggrísa og kálfa sem fyrirbyggjandi aðgerð) í búfjárræktina.
 
Á tímum þegar lögð var þung áhersla á framleiðsluaukningu, var öll heilbrigð skynsemi lögð til hliðar. Þetta reyndist ávísun á að ofnæmi og ófrjósemi héldi innreið sína í mannkynið í gegnum matvæli.“

Því segir hún það vera „forréttindi“ að stunda búskap á Íslandi þar sem hægt sé að framleiða „hollan matvörur án teljandi mengunar.“

„Í uppvextinum upplifði ég hvernig landbúnaðurinn úðaði og úðaði. Sem unnandi útivistar var auðséð (jafnvel fyrir barn) hvernig fiðrildi, froskar og mörg blóm hurfu af engjum ,úr vegköntum og skurðum. Það var ömurleg sjón að sjá fjölbreytileikann hverfa,“ ritar Ellen, en minnkandi líffræðilegur fjölbreytileiki er talin ein helsta umhverfisógn Jarðarinnar í dag.

„Þetta var hins vegar aðeins toppurinn á ísjakanum. Öll lífkeðjan var undirlögð og því komin úr jafnvægi. Þar sem eitt leiddi af öðru og stöðugleiki í náttúrunni hvarf. Fljótlega skaðaðist eins konar úðunarvítahringur. Framundan var nýtt vandamál í formi upptöku eiturefna í fæðukeðjuna, þar sem manneskjan stóð efst – og þar erum við enn.

Þegar ég rak tamningastöð á Sjálandi, úðaði næsti nágranni minn akra sína með sirka 14 daga millibili. Hann byrjaði með illgresiseyði og það oftar en einu sinni. Síðan úðaði hann aftur og aftur fyrir hinum og þessum skordýrum og sveppum. Svo var einnig úðað með efni, sem virkar vaxtarhemjandi á stráið, esem vitað er að hefur neikvæð áhrif á frjósemi í fæðukeðjunni. Ein reiðgata okkar lá meðfram ökrum bóndans og var meðfram henni blómagróður. Þetta vildi bóndinn meina að mengaði akur hans. Hann úðað því yfir reiðgötuna með Roundup. Þar óx alls ekkert næstu fjögur árin.

Þegar ég síðan stend hér í þessu fallega landi er dásamlegt að geta framleitt fóður án þess að nota úðunarefni.“

Ellen hvetur íslenska neytendur og framleiðendur til að standa vörð um þá sjálfbæru búskaparhætti sem viðhaldist hafi í landinu. „Íslenskir neytendur neyðast til að gera upp við sig, hvort þeir vilji fórna hreinum íslenskum matvælum á altari Evrópubandalagsins.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.