Orkumálinn 2024

„Forritun er tungumál framtíðarinnar“

Þrír grunnskólar á Austurlandi fengu úthlutað styrkjum frá sjóðnum Forritarar framtíðarinnar undir árslok 2018. Tilgangur sjóðsins er að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins.



Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar er samfélagsverkefni sem hefur það hlutverk að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. 

Frá stofnun sjóðsins árið 2014 hefur styrkjum fyrir hátt í 45 milljónir króna verið úthlutað. Alls hlutu 28 skólar styrki árið 2018 og meðal þeirra voru grunnskólarnir á Djúpavogi, Eskifirði og Borgarfirði eystra. Samanlögð upphæð styrkjanna er 8,5 milljónir króna, þar af voru 70 tölvur að andvirði ríflega 4,5 milljónir króna. Næsta úthlutun fer fram í lok ársins 2019.

„Markmið sjóðsins er að stuðla að aukinni fræðslu og áhuga meðal barna og unglinga á forritun og tækni, að tækjavæða skólana, auka þjálfun og endurmenntun kennara og að forritun verði hluti af námskrá grunn- og framhaldsskóla,“ segir Sigfríður Sigurðardóttir, formaður stjórnar Forritara framtíðarinnar. „Við sjáum þegar árangur af stuðningi sjóðsins og merkjum áhuga í skólunum á að gera enn betur. Þekking tengd tækni og forritun er gríðarlega mikilvæg í nútíma samfélagi og við erum stolt af því að geta stutt skólana í að efla þá þekkingu til framtíðar. Hollvinir sjóðsins eru Reiknistofa bankanna, Íslandsbanki, Landsbankinn, CCP, Icelandair, Össur, KOM ráðgjöf, Webmo design og Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Forritunarkennsla hefur aukist í Djúpavogsskóla
Djúpavogsskóli fékk sex tölvur og skjái til að nýta við forritunarkennslu. Ólafur Björnsson, upplýsingatæknikennari við Djúpavogsskóla, segir að umsókn skólans í sjóðinn hafa verið rökrétt framhald af þeirri forritunarkennslu sem fram hefur farið þar undanfarin ár. 

„Forritunarkennsla er gífurlega mikilvæg og við viljum leita allra leiða til að ýta undir að okkar börn fái tækifæri til að læra forritun. Að taka þátt í verkefnum eins og Forriturum framtíðarinnar er liður í því. Almennt held ég að fólk átti sig ekki á mikilvægi þess að börn læri forritun en ég vona og trúi því að forritun verði skyldufag í skólum innan ekki of margra ára. Síðastliðin ár hefur vægi forritunar í tölvukennslu aukist til muna hjá okkur. Forritun er tungumál framtíðarinnar og við viljum að okkar nemendur muni geta lesið og skrifað það tungumál,“ segir Ólafur.

Væntanleg viðbygging við skólann mikilvæg
Ólafur segir að plássleysi hafi hamlað því að ekki hafi verið hægt að setja tölvurnar upp í sérstöku forritunarhorni eins og til stóð. „Við erum þó alltaf með hugann við það hvar hægt væri að koma þeim upp og ýmislegt hefur verið prófað, án þess þó að viðunandi lausn hafi fundist. Það undirstrikar mikilvægi þess að væntanleg viðbygging við skólann verði að veruleika sem fyrst.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.