Formlegar meirihlutaviðræður hafnar í Fjarðabyggð

Framsóknarflokkur og Fjarðalisti hafa ákveðið að hefja formlegar viðræður um myndun meirihluta í Fjarðabyggð.

Þetta er niðurstaða samtals sem flokkarnir hafa átt frá því um helgina. „Við höfum átt gott samtal um stefnumál og samstarfið. Við höfum nú ákveðið að færa það upp á formlegt stig,“ segir Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknar.

„Við erum komin með umgjörð að málefnasamningi eftir að hafa rætt málefnin sem flokkarnir voru með í kosningabaráttunni og samstarfið síðustu fjögur árin,“ bætir hann við.

Flokkarnir mynduðu meirihluta fyrir fjórum árum, Framsókn með tvo fulltrúa en Fjarðalistinn fjóra. Í kosningunum síðast laugardag tapaði Fjarðalistinn tveimur fulltrúum en Framsókn bætti einum við sig. Á sama tíma bætti Sjálfstæðisflokkur við sig tveimur fulltrúum, fór í tveimur í fjóra og fékk ríflega 40% fylgi.

Sjálfstæðismenn hafa gagnrýnt að ríkjandi meirihluti hafi haldið áfram viðræðum og sagt horft fram hjá vilja kjósenda. „Skilaboð kosninganna eru sú að Sjálfstæðisflokkurinn fær mjög góða kosningu en það gerum við í Framsókn líka, bætum við okkur sjö prósentustigum og bæjarfulltrúa, sem við erum afar stolt af.

Skilaboðin eru líka þau að meirihlutinn heldur, er með 55% fylgi. Því töldum við eðlilegt að taka samtalið þar fyrst og samtalið er að taka á sig þessa mynd,“ segir Jón Björn.

Fulltrúar flokkanna munu halda áfram að funda um helgina. Jón Björn vonast til að viðræðunum ljúki um miðja næstu viku. „Við fundum áfram um helgina og reiknum með niðurstöðum fljótlega eftir helgina eða um miðja næstu viku. Næsta vika er síðasta vika núverandi bæjarstjórna, þeirra kjörtímabil rennur út 29. maí og við viljum að fyrir þann tíma sé komin niðurstaða.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.