„Fólk var bara hrært yfir þessu“

Nýstofnuð Sinfóníuhljómsveit Austurlands hélt sína fyrstu tónleika 1. desember. Húsfyllir var á tónleikunum, sem haldnir voru í Menningarmiðstöð Austurlands á Eskifirði, þar sem brot úr nokkrum frægustu sinfóníuverkum heims voru leikin.


„Hugmyndin að sveitinni fæddist í kaffispjalli heima hjá mér í vor, þar sem nokkrir hljóðfæraleikarar voru samankomnir. Við vorum sammála um að nú væri góður tími til þess að kýla á þetta,“ segir Gillian Haworth, eða Dillý, formaður Sinfóníuhljómsveitar Austurlands, um tilurð hennar.

Dillý segir að þegar líða tók á haustið hafi hópurinn séð að 1. desember væri kjörin dagsetning til þess að halda fyrstu tónleikana. „Þegar við fórum svo að manna hljómsveitina kom í ljós að við vorum með enn fleiri hljóðfæraleikara á svæðinu en við bjuggumst við, en það endaði með því að 28 Austfirðingar voru á sviðinu á laugardaginn. Þeir yngstu voru 16 ára og stóðu sig alveg frábærlega. Einnig fengum við 19 hljóðfæraleikara að sunnan og norðan, auk hljómsveitarstjórans Zigmas Genutis og konsertmeistarans Zsuzsanna Bitay. Alls voru því um 50 manns í hljómsveitinni að þessu sinni, en það er heppileg stærð fyrir þetta hús, það komast ekki mikið fleiri hljóðfæraleikarar fyrir svo vel sé.“

Dillý segir að ákveðið hafi verið að velja tónlist sem allir þekkja. „Þetta var alveg rosalega hátíðlegt, við fórum í alvöru hátíðargír og spiluðum brot úr nokkrum þekktustu sinfóníuverkum heims. Auk þess hóuðum við í meðlimi karlakóra vítt og breitt af svæðinu og það komu meira að segja nokkrir allt frá Höfn í Hornafirði. Það endaði með því að 75 karlar stóðu á sviðinu og sungu Brennið þið vitar, það var alveg hrikalega flott.“

„Við vorum klökkar þegar þetta var búið“
Dillý segir að allir sem að tónleikunum komu séu himinlifandi. „Við vorum þrjár blásturs-systur, sem sátum saman á sviðinu á laugardaginn og spilum með Akureyringum í kvintett. Við vorum klökkar þegar þetta var búið. Þetta gátum við! Það eru fjölmargir tónlistarkennarar og hljóðfæraleikarar um allt land, fólk sem langar að spila meira og gera flotta hluti á sínu svæði. Við eigum fullt af hæfileikaríku fólki hér fyrir austan og það væri bara hallærislegt að vera ekki með sinfóníuhljómsveit. Af hverju ætti menningarstigið hér að vera eitthvað lægra en annars staðar?“

Húsfyllir var á tónleikunum og áhorfendur ánægðir. „Þeir sem ég hitti strax eftir tónleikana voru hreinlega með tárin í augunum af hrifningu, fólk var bara hrært yfir þessu. Í lok tónleika stóðu allir í salnum upp og sungu saman þjóðsönginn og sveitin spilaði undir, það var gæsahúðarmóment.“

Eskfirðingar opnuðu heimili sín
Dillý segir að undirbúiningur hafi almennt gengið vel en veðrið hafi þó strítt þeim í restina. „Við vorum búin að skipuleggja æfingar í þaula með þeim sem komu að sunnan og norðan, en það gekk ekki alveg eftir. Eskfirðingar opnuðu heimili sín svo upp á gátt og hýstu þá sem komu að, enda gestrisnir með eindæmum. Það vakti mikla lukku og hljóðfæraleikararnir voru himinlifandi með mótttökurnar og mynduðu um leið tengsl við heimafólk.“

Dillý segir að hópurinn sé strax farinn að skipuleggja næstu skref. „Við erum farin að plana næstu tónleika og við gerum grein fyrir þeim fljótlega. Eigum við ekki bara að halda lesendum í spennu með það?“

Ljósmynd: Ásgeir Metúsalemsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.